Menu:

Yoga

 



Yoga þýðir heild eða sameining. Líkami, tilfinningar og hugur mynda eina heild, við erum ekki aðskilin hvort frá öðru heldur myndum við eina heild sem er samofin lífríki jarðar. Yogaiðkun byggir á hinum ævafornu yogavísindum um þroskaleið mannsins, vísindum um andlegt líf í efnislegum heimi.

Yogaástundun stuðlar að jafnvægi og tengir djúpt við sköpunarkraftinn og lífsgleðina. Í yogatímunum er unnið með yogastöður (asana), öndun (pranayama), hugleiðslu (dhyana), einbeitingu (dharana) og slökun sem á einfaldan og áhrifaríkan hátt eflir meðvitund okkar og styrkir öll grunnkerfi líkamans, hringrás öndunar og blóðrásar, stoðkerfi, meltingu og innkyrtlakerfi. Jafnvægi skapast í orkubúskap líkamans og meðvitund okkar um hver við erum í raun og veru eflist og styrkist.

Yogaiðkun er oft greind í þrjár greinar Jnana, Bhakti og Karma. Jnana mætti þýða sem yoga vitsmunanna og hentar vel þeim sem opna fyrir dýpri vitund gegnum skilning og fræðslu. Jnana yoginn les helgirit og tileinkar sér yogavísindin gegnum vitsmunina. Bhakti yoga mætti kalla yoga tilbeiðslu og bæna og hentar vel þeim sem tengja við dýpri vitund gegnum tilfinningar og bænalíf. Bhakti yoginn ástundar bænalíf, kyrjun á möntrum, söng og tilbeiðslu. Karma yoga mætti þýða sem yoga athafna og gjörða. Karma yoga hentar vel þeim sem vilja vera virk í lífinu. Karma yoginn iðkar þjónustu, að þjóna hinu helga í hverri manneskju með athöfnum sínum og gjörðum. Mikilvægt stef í Karma yoga er að gefa og gera án þess að vera háð útkomunni eða eigna sér ávextina. Hatha yoga er oft flokkað undir Karma yoga. Mikilvæg leiðarljós í Hatha yoga eru Yamas og Niyamas. Yamas og Niyamas eru leiðarljós um samskipti okkar við sjálf okkur og aðra og eru sjálfsprottin birtingarform kærleikans þegar við erum í jafnvægi en nýtast okkur sem leiðarljós eins og áttaviti þegar skyggni er slæmt.

Í sutrum Patanjali er yogaiðkun greind í átta greinar og oft nefnd Ashtanga yoga eða Raja yoga. Greinarnar átta eru Yama, Niyama, asana (líkamsstöður), pranayama (öndunaræfingar), pratyahara (draga athyglina innávið / losa um samsömun við skynheiminn), dharana (einbeiting), dhyana (hugleiðsla), Samadhi (einingarvitund). Þannig er Hatha yoga oft iðkað sem Raja yoga þegar ástundun dýpkar og nær til athafna okkar og gjörða í daglegu lífi, innra sem ytra. En hvaða nöfnum sem við nefnum yogaiðkunina þá er hún ætið sem vatn fyrir fræ hinnar helgu vitundar og hjálpar okkur að ná fullum blóma í kærleika og visku.

Við lifum í heimi margbreytileikans þar sem allt er stöðugt að breytast. Það að hvíla í augnblikinu hér og nú gefur okkur tækifæri til þess að uppgötva hver við erum í raun og veru. Yogaiðkun af hvaða grein sem er eflir ætið möguleika okkar að vera til staðar í núinu, að vera til staðar í eilífðinni. Að vera með því sem er eins og það er án þess að dæma. Að vera til staðar handan við tvíhyggju hugans um rétt og rangt, gott og vont, mitt og þitt og opna þannig fyrir dýpri vitund ljóss og kærleika. Margir hafa með yogaiðkun skapað undursamlegt jafnvægi og gamlir kvillar eins og streyta, þreyta, svefnleysi, kvíði og depurð hafa umbreyst í skapandi lífsorku. Margir hafa fundið í yogaiðkun farveg til að umbreyta þjáningu í kærleika. Margir hafa fundið fyrir meiri orku, gleði, umburðarlyndi, frelsi, kærleika og hamingju. Yogaiðkun stuðlar ætíð að jafnvægi og umbreytingu. Þegar við erum í jafnvægi er auðveldara að mæta ögrandi verkefnum og samskiptum á heilbrigðan hátt og lifa í sátt við sjálf okkur og aðra.

Yogaástundun hjálpar okkur að finna hver við raunverulega erum og að birta helga vitund á skapandi hátt í athöfnum okkar og gjörðum.

om shanti om shanti om shanti

om tat sat