Menu:

Ásta Arnardóttir

 

Ásta Arnardóttir er yogakennari, leikkona og leiðsögukona að mennt. Hún hefur kennt yoga síðan 1999 og starfað sem leiðsögukona á hálendinu síðan 1991 og hefur frá árinu 1998 tekið virkan þátt í að efla meðvitund um mikilvægi þess að vernda lífríki jarðar.

Ásta hefur kennt yoga síðan 1999, hún er einn af stofnendum Lótus yogasetur 2002 - 2012 og opnaði Yogavin haustið 2014. Hún lauk yogakennaraprófi frá Kripalu Center for Yoga and Health 1999 og hefur sótt fræðslu og iðkað yoga og hugleiðslu í Bandaríkjunum, Englandi og Indlandi. Meðal kennaranámskeiða sem hún hefur sótt er Yin Yoga kennarnám hjá Sarah Powers vorið 2013 og Vinyasa með Julie Martin vorið 2012. Ásta hefur stundað  vipassana hugleiðslu frá 1997 m.a. á kyrrðarvökum (silent retreat) í Gaia House í Englandi, mánaðar kyrrðarvökur 2006 og 2010 á Spirit Rock Meditation Center  og 3 mánaðar kyrrðarvöku 2013 á IMS í Bandaríkjunum. Sharda Rogell er hennar mentor en meðal kennara hafa verið  Jack Kornfield og Joseph Goldstein og Gil Fronsal. Ásta hefur sótt ýmis námskeið í heilbrigðum lífsstíl og dansi m.a. á Ann Wigmore Health Institude í Puerto Rico og 5 Rythma námskeið með Alain Allard og Jonathan Horan í Costa Rica.


Hún stofnaði til gönguferða um undraveröld Jöklu haustið 2002 í þeim tilgangi að vekja athygli á náttúruparadís í hættu vegna Kárahnjúkavirkjunnar. Sumarið 2003 stofnaði hún ásamt Ósk Vilhjálmsdóttur til leiðangra á vegum Augnabliks um undraveröld Jöklu og Kringilsárrana og fossaröð Jökulsár á Fljótsdal. Þær gengu í fjögur sumur með um þúsund manns um landið sem hvarf vegna Kárahnjúkavirkjunnar. Í öræfaferðum með Ástu er fléttað saman gönguferðum um hálendið og yoga úti í náttúrunni. Markmið ferðanna er að efla meðvitund um náttúruvernd og mikilvægi þess að vernda lífríki jarðar.

Hún hefur bakgrunn sem leikkona og leikstjóri og starfaði í 15 ár við leiklist og leiklistarkennslu. Hún hefur haldið fjöldamörg námskeið í yoga, leiklist og spuna m.a. í Kramhúsinu, Lotus yogasetri, Yogavin, Leiklistarháskólanum, Leiklistarskóla BÍL, Kennaraháskólanum og víðar. 


Hún sat í stjórn Náttúruaverndarsamtaka Íslands 1999 – 2003 og Umhverfisnefnd Félags Leiðsögumanna 2000 – 2003. Hún sat  í stjórn Jógakennarafélags Íslands 2005 - 2007 og var formaður félagsins árið 2006 - 2007. Ásta Arnardóttir var ásamt Ósk Vilhjálmsdóttur tilnefnd til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2009.