Menu:

Rósablöð og þyrnar

 

Hugleiðing um leiðarljós og hindranir á hinni andlegu leið.                  Um lífsþorstann, þránna og þjáninguna.

 

    Þegar ég var að undirbúa þetta erindi þá birtist mér mynd á innri sviðum sem sameinar dýrmæt rósablöð á minni leið og ég teiknaði hana upp og birti hér til hliðsjónar. Sjá myndina. Rósablöðin koma víða að, frá Jesú og Búdda og ástkærum kennurum sem og fjölskyldu og vinum og hafa blessað líf mitt á undursamlegan hátt.
     Rósin er tákn ástarinnar og við þekkjum öll máltækið engin er rós án þyrna. Blómið er tákn fyrir lífsorkuna, kærleikann. Í austrænu vísindunum er lótusblómið tákn fyrir hina tæru kærleiksvitund, lótusinn vex uppúr myrkri tjörn og minnir okkur á að kærleikurinn blómstrar óháð aðstæðum. Þannig er lótusblómið tákn fyrir möguleika okkar að umbreyta þjáningu í kærleika.  Sama tákn og krossinn í kristninni, sigurtákn kærleikans. Krossinn var þjáning sem Kristur umbreytti í kærleika, frelsi undan þjáningunni. Og við höfum öll okkar kross að bera. Og höfum öll tækifæri að vökva fræ kærleikans. Öll trúarbrögð bera vitni um þennan möguleika. Og öll benda okkur í átt að því að sá veruleiki sem við skynjum með skynfærunum fimm er ekki hinn endanlegi veruleiki alls sem er. Í heimi margbreytileikas sem tekur á sig form, fæðist og deyr, er eilífur veruleiki sem við nefnum Guð. Öll andleg vísindi benda okkur á þann veruleika einingar í kærleika og visku og að hann sé að finna hið innra en sé þó handan við alla aðgreiningu innra og ytra.  Guð er í mér og þér og hann er eitt og hið sama. Guðsvitundin er einingarvitund, skilyrðislaus kærleikur.
     Þau sem hafa náð fullum blóma í kærleika og visku hafa skilið eftir sig leiðarljós í helgiritunum. Rósablöð á leið okkar sem gera okkur leiðina léttari. Í þessu erindi langar mig að vitna í þekkt helgirit yogavísindanna, Bhagavat Gita og Yogasútrur Patanjali sem og helgirit ástkærra meistara Búdda og Jesú Krists. Helgiritin eru ótalmörg en viskan varðveitist hið innra mann fram af manni og samkvæmt  yogavísindunum er helgiritið hið innra. Margir hafa lagt sitt af mörkum til að hjálpa okkur að opna það helgirit og allir eru sammála um að það gerist í hinu eilífa núi þegar vitundin er vakandi og tær, í hinni vakandi kyrrð hið innra.  Í núinu förum við handan við hugann. Hugarstarfsemin, hugsanirnar þurfa svið fortíðar eða framtíðar til að leika sinn leik. Þegar við erum hvorki upptekin af fortið né framtíð þá er hugurinn kyrr og það skapast aðstæður til að “lesa” helgiritið hið innra eða hinn Upprunalega Huga, hið Sanna Sjálf, veruleikann sem við nefnum Guð, sem er handan við allar skilgreiningar.

Yoga er að fara handan við hugann.

    Hverjar eru hindranirnar, hvers vegna erum við ekki eitt með Guði í alsælu kærleikans alla daga. Hvers vegna öll þessi þjáning? Hves vegna stríð? Hvers vegna er jarðlífið oft þyrnum stráð? Hvers vegna þyrnikóróna Krists og krossinn? Samkvæmt yogavísindunum, kenningum Búddda og ef grannt er skoðað kærleiksboðskap Krists þá eru hindranirnar í huganum eða nánar tiltekið í þeim strúktúr sem við köllum egó eða ég-vitundin.
   Yogavísindin eru mörgþúsund ára gömul, djúpstæð vísindi um andlegt líf í efnislegum heimi. Yoga þýðir eining. Samkvæmt yogavísindunum er lífið ein heild. Líkami, tilfinningar, hugur mynda eina heild sem verður ekki aðskilin. Menn, jurtir og dýr eru ein heild. Lífríki jarðar er heild samofin alheimi í einingu alls sem er. Þannig kallar yoga okkur til meðvitundar um sköpunarkraftinn. Yoginn er sá sem fer í leiðangur að rannsaka innanfrá, lesa helgiritið hið innra. Yogavísindin hafa rannsakað andlegt líf og kortlagt það mjög nákvæmlega. Vestrænu vísinidin eru nú að nálgast mjög spennandi snertiflöt við yogavísindin t.d. í skammtafræðinni og strengjafræðinni. Vestrænu vísindi hafa rannsakað efnið og það leiddi þau inní hinar smæstu einingar. Atómið er í raun 99% tóm eða empty space og efnisheimurinn er búinn til úr atómum. Búdda vitnaði oft í tómið (emptyness) og vestrænar rannsóknir á efnisheiminum rannsaka nú tómið eða það sem er handan við tíma og rúm. Rannsóknir beinast að meðvitundinni (conciousness). En hvernig sem vísindamenn og yogar hafa reynt að staðsetja meðvitundina þá  hefur þeim ekki tekist það. Vitundin er skynfærið sem skynjar hugsun og það er ekki hægt að staðsetja hana. Það er því líklegt að vitundin skynji ekki bara okkar "eigin" hugsanir. Sé einskonar samsvið, samvitund. Vestrænu og austrænu vísindin eru komin á ákveðið samsvið hér, hina skapandi heild, einingu. Vísindamenn hafa líka rannsakað tilfinningar og telja að þær séu einungis tvær ótti og kærleikur. Allar aðrar tilfinningar séu útgáfur af þeim. Kærleikur hefur mjög háa orkutíðni og er mjög heilandi, ótti lága orkutíðni. Nýjustu rannsóknir í erfðavísindum sýna fram á að í DNA séu einskonar on/off  takkar sem skynja orku tilfinninganna. Í DNA eru 64 lyklar eða kóðar en aðeins 20 þeirra eru virkir. Há orkutíðni kærleikans virkjar þessa kóða. Erfðavísindin hafa þannig sannað að kærleikur hefur djúpstæð áhrif á þróun mannsins og eiga þar samleið með andlegum vísindum sem öll eru vísindin um kærleika og visku.
     Andlegir meistarar hafa skilgreint kærleikann sem einingarvitund og bent á að óttinn er í huganum. Í Yogasútrum Patanjali er yoga skilgreint að fara handan við hugann. Á sanskrit er það orðað svona í 2. Sútru Patanjali. Yogas chitta vrtti nirodhah. Ef að yoginn skilur þessa sútru til fulls er hún formúla hvernig hægt er að fara handan við hugann og þar með að þekkja og birta hið Sanna Sjálf. Yoga þýðir eining. Chittam þýðir hugurinn í heild sinni, hughjartað. Hann skiptist samkvæmt yogavísindunum í þrennt. Ahamkara stendur fyrir ég-vitundina, sem skapar aðgreiningu og hæfileikann til að aðgreina en sá hæfileiki er kallaður buddhi og leiðir til  mana en það er hugur langana sem tengjast skynjun okkar á ytri veruleika, skynheiminum. Vritti þýðir hreyfing eða breyting. Nirodah þýðir að stjórna eða hafa vald á. Yoga chitta vrtti nirodhah þýðir þannig yoga er að hafa vald á hreyfingum hugans. Þessar hreyfingar hugans eru uppspretta athafna og fíngerðar athafnir í sjálfu sér. Yoga er að komast handan við þessar hreyfingar með því að ná valdi á hugarstarfseminni eða nánar tilgetið viðbrögðum hugans við skynjun. Við getum skilið þetta á einfaldan máta. Segjum að ég sitji og hugleiði og ég finn lykt. Skynjun er á sviði ahamkara, það er eitthvað sem ég nefni ég sem skynjar gegnum skynfærin í þessu tilviki lykt. Þá mætir til leiks buddhi og skilgreinir hvaða lykt. Segjum t.d. lykt af nýbakaðri súkkulaðiköku. Og þá mætir hugur langana mana til leiks og ef okkur finnst súkkulaðikaka mjög góð þá verður hugurinn upptekin af löngun í súkkulaðikökuna og jafnvel eitthvað gott að drekka með og undir venjulegum kringumstæðum róast hann ekki fyrr en hann hefur fengið súkkulaðiköku. Ef við náum hins vegar valdi á mana þá er hugsanlegt að við getum sleppt takinu á lönguninni og hugurinn verður hljóður á ný. Náttúrulegt eðli hugans er friður og kyrrð. Patanjali fjallar ítarlega um yogaiðkun sem leið til að kyrra hugann  og oft er vitnað í yogasútrur Patanjali sem Raja yoga eða hina áttföldu leið yoga. Þannig gefur Patanjali skilgreiningar á átta praktískum leiðum til að kyrra hugann. Asana ( líkamsstöður), Pranayama (öndunaræfingar), Pratyahara (að draga athyglina innávið), Dharana (einbeiting), Dhyana (hugleiðsla), Yamas og Niyamas (10 leiðarljós um samskipti okkar við sjálf okkur og aðra) og Samahdi (samvitund).
     Búdda var mikill kennari um eðli hugans og þjáningarinnar. Í fyrstu kennslustund sinni um þjáninguna og hvernig við losnum undan þjáningu notaði Búdda módel læknavísindanna á þeim tíma. Læknar störfuðu eftir þessu módeli; að greina vandamálið, skilgreina orsökina, formúlera lækninguna og segja til um hvað þarf að framkæma. Búdda tileinkaði sér þessa formúlu þegar hann setti fram Fjórfalda Sannleikann (The Four Noble Truths). Þannig beindi hann athyglinni að praktískri leið til lækninga fremur er heimspekilegum vangaveltum um lífið. 

1. Það er þjáning í lífinu. 
Allir þrá hamingjuna (sukha) og upplifa þjáninguna (duhkha). Allt breytist í þessu lífi og hið fallvalta getur aldrei svalað þrá okkar að vera hamingjusöm. 
2. Orsök þjáningar er í huganum. 
Það er ekki lífið sem veldur þjáningu heldur þær kröfur sem við gerum til lífsins. Duhkha á rætur sínar að rekja í sjálfmiðaðri eða eigingjarnri þrá (trishna). Hvernig við höldum í og eignum okkur og eigum erfitt með að sleppa takinu. Búdda líkti eigingjarnri þrá við óslökkvandi eld og þjáningu okkar vegna hennar við þjáningu manns sem þjáist vegna þess að banantréð ber ekki mangóávöxt. 

3. Það er möguleiki á að vera laus undan þjáningu.
Við getum losnað undan þjáningunni, sleppt takinu á eigingjörnum löngunum og vaknað til vitundar um okkar sanna eðli, hvílt í  hughjartanu þar sem er engin barátta eða flótti eða fastheldni, þar sem við erum fullkomlega frjáls og hamingjusöm, hugurinn friðsæll og án átaka.
4. Leið út úr þjáningu er hin áttfalda leið. 
Hún lýsir átta praktískum skrefum sem hjálpa okkur að skapa aðstæður sem hlúa að andlegum þroska. Hún kortleggur hvernig við getum ræktað með okkur skilning, kærleik og meðvitund sem gerir okkur mögulegt að sleppa takinu á sjálfhverfum löngunum sem valda þjáningu. Í hinni áttföldu leið er m.a. lögð áhersla á að skilningur verður ekki að þekkingu fyrr en við höfum öðlast beina persónulega reynslu, beina upplifun af því sem við skiljum.
     Jesú lifði það sem hann kenndi, líf hans var kærleiksboðskapur, vitnisburður um lifandi trú, von og kærleika. Svar Jesú við þjáningunni, þyrnikórónunni er hin djúpstæði friðarboðskapur fyrirgefningarinnar.“Faðir fyrirgef þú þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra”. Boðskapur Krists um fyrirgefninguna er boðskapur um djúpstæðan skilning og kærleika sem er handan við tvíhyggju hugans,  aðgreiningu í rétt rangt, gott vont, vinur óvinur. Jesú kenndi hvernig lifa mætti án skilyrtra viðbragða óttans, hann kenndi hvernig velja mætti athöfn kærleikans í erfiðum aðstæðum, hvernig bjóða mætti hinn vangann. Hann kenndi okkur um eininguna í daglegu lífi “það sem þið gjörið mínum minnsta bróður það gjörið þér mér” Hann lifði kærleiksboðskapinn til fulls. Þorsti Jesú á krossinum var ekki einungis þorsti deyjandi manns heldur þorsti hins lifandi kærleika, djúpstæð þrá. “Mig þyrstir” þorsti Krists í kærleika Guðs og kærleika okkar og hann gaf líf sitt Guði “verði Þinn vilji ekki minn”.

Hver fæðist, hver deyr, hvað er þetta ég sem ég kalla ég?

   Barn er oss fætt, viska og kærleikur sem okkur ber að hlúa að og skilja til fulls. Hvað er það sem fæðist í heiminn? Viska og kærleikur fæðist og löngun til að mynda tengsl, ná saman í visku og kærleika. Alveg frá því að við fæðumst höfum við mjög persónlega reynslu af löngun og þrá. Barnið fæðist í heiminn og þráir að mynda tengsl. Það lærir leikreglur fullorðinna, tungumálið og ýmis skilyrt viðbrögð og hugmyndaheimurinn verður til.  Barnið spyr hvað er þetta? Fullorðni svarar þetta er blóm? Og við það myndast í huga barnsins hugmynd um blóm og smám saman byrjar manneskjan að mynda tengsl við hugmynd sína um blóm í stað þess að kanna veruleikan blóm. Við myndum okkur hugmyndir um hvort annað og myndum tengsl við hugmyndir okkar um hvert annað. Þetta er oft mjög augljóst í fjölskyldum eða á vinnustöðum. Þetta veldur oft mikilli þjáningu því manneskjan er ekki hugmynd. Oft höfum við sniðið okkur svo þröngan stakk hugmynda um sjálf okkur og aðra að við erum að kafna. Og þá gerist það stundum að við byrjum að spyrja aftur. Hvað er þetta? Hvað er að gerast? Hver er ég?
    Ég-vitundin felur í sér ég og þú, við og þið, eitthvað sem er aðskilið, það er eðli egósins að skapa aðskilnað.  Með ég-vitundinni kemur löngun eða þrá hjá þessu “ég”  að vera hamingjusöm. Hin djúpstæða löngun innra með sérhverri manneskju. Hið máttuga og göfuga hreyfiafl. Löngunin, þráin. Þráin að vera hamingjusöm. Þráin að elska og vera elskuð. Þráin að vera laus undan þjáningunni. Þráin að vita, þekkja, skilja, elska, skapa, gera, þjóna, njóta. Eins og allar ár renna í hafið leiða allar langanir okkur að lönguninni að vera eitt með Guði.
     Löngunin eða þráin er göfugt hreyfiafl á hinni andlegu leið. Í yogavísindunum er yogaiðkun oft greind í þrjár greinar Jnana, Bhakti og Karma. Jnana  mætti þýða sem  yoga vitsmunanna og hentar vel þeim sem opna fyrir dýpri vitund gegnum skilning og fræðslu. Jnana yoginn þráir að skilja, þekkja, vita.  Jnana yoginn les helgirit og tileinkar sér göfugt líf gegnum vitsmunina. Bhakti þýðir guðdómleg ást. Bhakti yoga mætti kalla yoga tilbeiðslu og bæna og hentar vel þeim sem tengja við dýpri vitund gegnum tilfinningar og bænalíf. Bhakti yoginn þráir að þekkja ástina, kærleikann og ástundar bænalíf, kyrjun á möntrum, söng og tilbeiðslu. Karma yoga mætti þýða sem yoga athafna og gjörða. Karma yoga hentar vel þeim sem þrá að vera virk og skapandi í lífinu. Karma yoginn iðkar þjónustu, að þjóna hinu helga í hverri manneskju með athöfnum sínum og gjörðum. Mikilvægt stef í Karma yoga er að gefa og gera án þess að vera háð útkomunni eða eigna sér ávextina. Hatha yoga má flokka undir Karma yoga. Þessar þrjár greinar eru svona eins og þrjár mismunandi dyr eða hlið inni í sama herbergi. Yfirleitt byrjum við á að opna eitt af þessum hliðum og svo opnast öll hin.
     Þegar ég fór mína fyrstu ferð sem leiðsögukona um Ísland fékk ég mjög góðan bílstjóra vegna þess að ég hafði ekki komið á alla þá staði sem átti að sækja heim í ferðinni. Ég fékk líka leiðbeiningu reyndra leiðsögumanna og ein af þeim var að láta ekki bera á því að þetta væri mín fyrsta ferð og segja aldrei “ég veit það ekki”. Ég tók ferðina mjög alvarlega og flutti langa pistla um sögu lands og þjóðar þar til ég uppgötvaði að þetta var nú ekki skólaferð og sólin skein og fólk vildi aðallega njóta hins fagra í náttúrunni. Í lok ferðar var komið við í Dyrhólaey og þangað hafði ég aldrei komið. Ég spurði því minn ágæta bílstjóra og hann sagði mér að ganga bara að hliðinu og innum það og þá myndi þetta blasa við. Ég hélt af stað og hjörðin á eftir. Þegar ég kom að hliðinu og ætlaði að opna var það harðlæst. Ég reyndi að vinna mér inn tíma með því að hrista hliðið  meðan ég hugsaði hvað ég ætti að gera. Þá banka ensk áhugasöm hjón í öxlina á mér og spyrja “ Af hverju förum við ekki hér?” Ég lít til hliðar og sé að það er engin girðing!! Ég var sem sagt svo upptekin af fyrirmælum bílstjórans og úrvinda af þreytu að ég sá ekki að það var engin girðing. Mér finnst alltaf vænt um þessa sögu því hún minnir mig á að við þurfum ekki alltaf að fara í gegnum hliðið.  Á sama hátt eru leiðirnar þrjár eins og gangur  inn í rými en þegar við komum þangað inn uppgötvum við að það eru engir veggir. Og við nánari athugun ekkert loft og enn nánari athugun ekkert gólf !!! Og þá gerir óttinn vart við sig, að vera í frjálsu falli, óttinn við að lenda. Þangað til við uppgötvum að það er engin jörð að lenda á ! Það er bara hið óendanlega og eilífa án upphafs og endis, yoga eining alls sem er og allur ótti hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Að lifa án þess að valda þjáningu.

    Hvaða nöfnum sem við nefnum andlegu leiðina þá er eitt af grunnstefinu ætið að lifa án þess að valda þjáningu. Og þjáningin er í huganum. Lífsþorstinn eða þráin er í eðli sínu göfugt hreyfiafl en getur breyst í þjáningu og verið hindrun eða þyrnir á leið okkar. Það gerist þegar egóið “eignar” sér langanir okkar og þrár og þær verða eigingjarnar. Þegar þráin verður eigingjörn, sjálfmiðuð veldur hún þjáningu og missir marks. Þetta er grunnstefið í praktískum leiðarljósum yogavísindanna. Svo stóra spurningin er hvernig gerist þetta? Hvernig verður lífsþorstinn sjálfhverfur og þjáningarfullur? Yogavísindin eru búin að kortleggja það mjög nákvæmlega. Þetta gerist í Chitta Vrtti, hreyfingum hugans. Yoga Chitta Vrtti Nirodah þýðir yoga er að fara handan við hugann. Í 3. Sútru segir Patanjali Taa Drastuh Svarupe Vasthanam sem Gunnar Dal þýðir svona. Þá þekkir yoginn sjálfan sig eins og hann er í raun og veru. Sem samkvæmt yogavísindunum er einingarvitundin, veruleikinn Guð. Og Patanjali heldur áfram í 4. Sútru Vrtti Sarupyam Itaratra sem útleggst á öðrum stundum ( virðist Sjálfið) taka á sig myndir hughrifanna.
    Til að skilja þetta betur getum við tekið dæmi úr náttúrunni. Þegar vatn er spegilslétt sjáum við andlit okkar speglast og þekkjum það. En um leið og vatnið gárast eða hreyfist afmyndast spegilmyndin. Ef við erum úti í náttúrunni að spegla okkur í vatni þá höfum við engar áhyggjur af þessu því að við vitum að við höfum ekki afmyndast, að andlit okkar hefur ekki breyst þó að spegilmyndin breytist. Þegar þetta gerist á hugarsviðinu trúum við því að andlit okkar sé í raun eins og spegilmyndin. Hugurinn speglar veruleikann og ef að hugur okkar er mjög ókyrr og óskýr þá er spegilmyndin eftir því og við trúum því að hugmyndin sé veruleikinn.
     Þjáningin á rætur sínar í því hvernig við bregðumst við skynjun okkar. Hvatinn að þessum hreyfingum hugans er löngun og ef hún er sjálfmiðuð þá reynir egóið að elta og halda í hið þægilega, vellíðun og forðast hið óþægilega, sársauka. Í raun er starfsemi egósins mjög einföld. Egóið bregst við skynjun á þrjá vegu. Skynjun berst okkur gegnum skynfærin fimm og égið bregst við já, nei og hlutlaust. Við reynum að halda í það sem okkur finnst gott og ýta frá því sem okkur finnst vont. Það sem er hlutlaust fer oft alveg framhjá okkur. Þessi hreyfing er á hinum lárétta ási sem við gætum kallað Prakriti en það er hugtak í yogavísindunum sem nær til allra fyrirbæra, alls sem hefur nafn og form. Í Bhagavad Gita er Prakriti lýst svona:

Jörð, vatn, eldur, loft, akasha (space), hugur, gáfur (intellect), egó  eru hinar átta greinar Prakriti (7.4.)

Hinn eilífi dans Purusha og Prakriti.

    I yogavísindunum er talað um Purusha og Prakriti. Purusha er andinn/sálin það sem er, var og mun verða, breytist ekki, er eilíft og óumbreytanlegt. Prakriti er allt hitt. Hugur, orka, efni tilheyrir Prakriti. Við gætum skilgreint manneskjuna sem hinn eilífa dans Purusha og Prakriti. Og Purusha hefur svona í gegnum tíðina verið doldið skotin í Prakriti. Við þekkjum það öll. Við verðum soldið skotin í efnisheiminum, hugmyndum okkar, tilfinningum. Prakriti er skilgreint sem orkusvið eða svið krafta sem greinast í þrjár gúnur. Þær verða til þegar sköpunarkrafturinn birtist okkur á reynslusviði okkar, svið líkamans, tilfinninganna, hugans og fíngerðari orkusviðanna. Gúnurnar nefnast tamas, rajas og sattva. Bhagavad Gita, sem við gætum nefnt handbók athafnanna, handbók leikarans, handbók dansarans, fjallar ítarlega um þær og þeim er lýst sem blæju margbreytileikans sem hylur eininguna.

Gúnurnar þrjár mynda mína guðdómlegu blekkingarblæju Maya sem erfitt er að sjá í gegnum (7.14.)


     Gúnurnr þrjár eru reynslusvið okkar og verða þess vegna ekki aðskildar huganum. Þær eru efniviður persónuleikans sem samkvæmt yogavísindunum er dínamískur, skapandi síbreytilegur veruleiki. Tamas þýðir myrkur eða stöðnun og tamasískur persónuleiki er staðnaður persónuleiki, eigingjarn og ófær um að setja sig í spor annara, fastur í eigin hugmyndaheimi, ónærgætin, latur og með lága orkutíðni.
Rajas vísar í hreyfingu sem dregur athyglina að ytri aðstæðum og skapar ójafnvægi. Rajasískur persónuleiki er ástríðufullur og dramatískur en sjálfmiðaður.
Sattva þýðir sannleikur eða það sem er og vísar í jafnvægi. Sá persónuleiki er  friðsæll og án átaka, honum fylgir kyrrð, friður og hamingja. Rajas og Tamas gera vart við sig í hinum sattviska persónuleika en sattviski hugurinn samsamar sig ekki með Tamas og Rajas og þess vegna ná þau ekki að mæta til leiks. Gúnurnar þrjár eru alltaf til staðar en það er mismunandi hver er í aðalhlutverki og hver í aukahlutverki. Persónuleikinn er ferli eða þróun sem hugurinn hefur áhrif á. Við erum stöðugt að endurskapa persónuleikann og reynslu okkar. Ef að við erum meðvituð um það og hvílum í augnablikinu hér og nú þá höfum við val. Oft erum við föst í gömlum vana, vanabundnum mynstrum á sviði líkama, huga, tilfinninga og fíngerðari orkusviða en með því að kyrra hugan þá höfum við val og getum breytt gömlum vana. Í Bhagavat Gita er talað um þetta val eða vilja.

Endurskapaðu sjálfan þig með viljastyrk þínum: lát aldrei eigingjarnan vilja niðurlægja þig. Viljinn er eini vinur hins sanna Sjálfs. Viljinn er eini óvinur hins sanna Sjálfs (6.5.)


     Hreyfingar hugans sem skapa óheilbrigt egó stjórnast af eigingjörnum vilja, sem á rætur að rekja í sjálfmiðaðri þrá. Og bataleiðin frá óheilbrigðu egói til heilbrigðs egós er fólgin í því að velja að sleppa takinu á hreyfingum hugans sem orsakast af sjálfmiðaðri þrá. Jesú orðaði þetta svona “Verði Þinn vilji ekki minn”.
     Eitt af grunnstefum yogaástundunar er að skapa jafnvægi. Í yogavísindunum er talað um að til þess að nálgast einingarvitundina verðum við að yfirvinna fyrst Tamas og umbreyta í Rajas og svo að umbreyta Rajas í Sattva. Ef að við erum ekki meðvituð um langanir okkar þá fara þær í gamlan sjálfmiðaðan vana. Égið ýtir því frá sem er óþægilegt það þróast yfir í óbeit og hatur, óheilbrigt egó, tamasíska reynslu. Égið eltist við það sem er þægilegt, heldur í  og það verður að fíkn og græðgi, tamasískri reynslu. Öll orkan fer í að eltast við hið þægilega og forðast hið óþægilega, orkan fer í að reyna að stjórna umhverfinu, manneskjan lifir í stöðugum ótta, ótta við að missa það sem henni finnst gott og að forðast það sem ógnar. Af því leiðir flótti eða vörn. Egóið nærist á ótta og óöryggi, það er í raun varnarmekansimi eins og þyrnarnir á rósinni. Það skapar heim blekkingar um aðskilnað og eignarhald “ég” og “mitt”.

Sá era ð eilífu frjáls sem sleppir takinu á eigingirni og brýst út úr egóbúrinu “ég” og “mitt” til þess að vera eitt með Guði (2.71.)

     Egó-búrið eða fjötrar þeir sem egóið skapar verður til þegar  egóið eignar sér eða samsamar sig Prakriti. Þessi samsömun er rót þjáningarinnar. Eftir því sem hún er sterkari fjarlægjumst við einingarvitundina. Samkvæmt yogavísindunum er hin sjálfhverfa þrá mannsins, eigingirnin, hreyfiaflið sem knýr Samsara hjól blekkingarinnar, sem gerir það að verkum að við endurfæðumst aftur og aftur inní heim þjáningarinnar, egóstrúktúrinn. Eckhart Tolle lýsir þessu svo snilldar vel í Ný Jörð þar sem hann talar um sársaukalíkamann. Þar segir hann:  “Eins og allt annað langar sársaukalíkamann að lifa af. Og það getur hann ekki, nema honum takist að fá ykkur til að setja einhverskonar jafnaðarmerki milli hans og ykkar. Þá getur hann átt greiða leið fram á siðið, tekið af ykkur völdin, orðið “þið” og lifað í gegnum ykkur. “Fæðuna” fær hann frá ykkur. Hann nærist á hverri þeirri reynslu sem rímar við hans eigin orku, allt sem kveikir sársauka: reiði, skemmdarfýsn, hatur, sorg, tilfinningaátök, ofbeldi og jafnvel veikindi. Þannig mun sársaukalíkaminn, þegar hann er farinn að ráða ferðinni, skapa sér þær aðstæður í lífi ykkar sem veita honum þá orku sem hann þarfnast. Sársauki getur aðeins nærst á sársauka. Sársauki getur ekki nærst á fögnuði, þótt ekki sé nema vegna þess að hann nær ekki að melta hann.”
...” Sásaukalíkaminn, myrkasti skuggi égsins, hræðist ekkert eins og ljós ykkar eigin vitundar. Hann óttast að upp um hann komist. Áframhaldandi tilvist sína á hann undir ómeðvituðum ótta ykkar við að horfast í augu við hann, svo og því að þið haldið áfram að trúa að hann sé “þið”. En ef þið horfist alrei í augu við hann, ef þið bregðið aldrei á hann birtu vitundarinnar, þá eruð þið dæmd til að vekja hann upp aftur og aftur. Ykkur kann að finnast sársaukalíkaminn vera eins og hættulegt skrímsli sem þið getið ekki barið augum. En ég fullvissa ykkur ujm að hann er aðeins hugarburður, sem óhjákvæmilega mun lúta í lægra haldi fyrir ykkar eigin tæru vitund.”

Ástarsorgin í skilyrtum heimi.

    Við lifum í skilyrtum heimi og þráum hið skilyrðislausa. Þetta skapar sorg í hjarta okkar. Sorgin er ævagömul. Hún á rætur í því þegar gamlar skilyrðingar birta sig í viðbrögðum okkar  við lífinu. Þegar við áttum okkur á því hvað ást okkar er í raun skilyrt. Við getum kallað þetta hina eilífu ástarsorg í skilyrtum heimi. Við þráum að vera hamingjusöm og þráin er svo að segja tekin til fanga af egóinu sem samsamar sig efnisheiminum og það leiðir til skilyrtra viðbragða sem valda aðskilnaði og þjáningu í stað einingar í kærleika. En skilyrta tilveran er líka oft heilbrigð og náttúruleg. T.d. er vatn skilyrðingin fyrir því að fræ byrjar að spíra. Vatn kemur við fræið og við það losna ensím eða hvatar sem halda fræinu í dvala. Á sama hátt virkar kærleikurinn á ég-vitundina. Þegar sönn ást og kærleikur snertir ég-vitundina skolast óttinn burt og þar með eldsneyti hins óheilbrigða egós sem heldur okkur í dvala og hið Sanna Sjálf lifnar við. En oftar en ekki þegar manneskjur koma saman mynda þær leikreglur eða kerfi sem eiga rætur sínar að rekja í ótta og  einkennast af óheilbrigðu egóí sem birtir sig t.d. í stjórnsemi, valdabaráttu, valdafíkn. Sambönd, fjölskyldur, samfélög, þjóðir, trúarbrögð, hugmyndakerfi endurspegla oft óheilbrigt égó, sjálfmiðað samfélag sem réttlætir aðskilnað og stríð. Hugsun sem afneitar annarri manneskju er sama hugsun og sú sem fóðrar stríð. Allt sem gerist hið ytra á sér fyrst stað hið innra. Umbreytingin er á innri sviðum. Ef að við lifum í sátt hið innra geta sambönd okkar orðið að samveru í kærleika og visku. Við bindumst ekki hvort öðru egóböndum og festum í fjötra heldur lifum í samveru, samvitund, samsköpun. Það þarf heilmikið hugrekki til að horfast í augu við hið skilyrta líf og þá þjáningu sem ævagamlar skilyrðingar hafa skapað.
     Í yogasútrum Patanjali fjallar hann ítarlega um leiðarljósin tíu Yamas og Niyamas. Eitt af þeim er Tapas. Tapas þýðir hiti eða bruni, Tap er líka þýtt sem  þjáning. Tapas er einskonar hreinsunareldur, að forðast ekki þjáningu sem er í raun egóið heldur að vera til staðar í þjáningunni, í egóinu og við það brennur það upp. Að hörfa ekki, heldur horfa, sjá með augum kærleikans. Tapas er að vera með þjáningu án þess að valda þjáningu. Að þekkja  þjáninguna eða eógið sem hreyfiafl til vaxtar og þroska í visku og kærleika. Þetta er auðvitað hægara sagt en gert. En fræ uppljómunarinnar eru í blekkingunni. Moksha (frelsi) er í Maya (blekking). Frelsið undan þjáningunni er í raun í þjáningunni, í blekkingunni, í huganum. Tækifærið að sleppa takinu og gefa eftir er í athöfninni þegar við höldum í eitthvað á hvaða sviði sem það er. Lykillinn að lifa til fulls er að deyja sjálfum sér. Yamas / Niyamas í yoganu eru í raun leiðarljós til þess. Yama þýðir dauði. Hér er átt við dauða egósins eða hins sjálfhverfa lífs og þar með að lifna við og vakna til lífsins, einingar í kærleika. Yamas / Niyamas eru þannig leiðarljós garðyrkjumannsins, hvernig við vökvum fræ ég-vitundarinnar þannig að óttinn skolist burt og fræ nú-vitundar blómstri. Eða eins og máltækið segir: Þegar óttinn bankar að dyrum og kærleikurinn opnar þá er enginn.

Mótstaða er ævinlega leikflétta egósins til að viðhalda sjálfu sér.

    Þráin getur tekið á sig ýmsar myndir og ef hún er eigingjörn snýst hún um að viðhalda hugmyndum okkar um sjálf okkur og aðra. Sameiginlegt með hinum ýmsu birtingarformum eigingirninnar er hin dulda þrá að lífið sé öðruvísi en það er. Þá verður til mótstaða eða mótþrói gagnvart augnablikinu eins og það  er. Mótstaða gagnvart augnablikinu eins og það er er ævinlega leikflétta egósins til að viðhalda sjálfu sér. Egóið nærist á ótta og óöryggi, aðskilnaði, tvíhyggju hugans, rétt rangt, gott vont, átökum. Drama lífsins er á innri sviðum og færist þaðan á ytra sviðið sem endurspeglar hið innra drama hugans. Þannig erum við oft að mæta sömu aðstæðum í lífinu bara í nýjum búning. Við myndum sömu mótstöðu bara í nýjum búning.  Hugurinn finnur sér viðfagnsefni til að vera með eða á móti og verður altekinn viðfangsefninu sjálfu. Ef að viðfangið hverfur úr ytri veruleika þá tekur það við hið innra og ef að það hverfur þaðan þá tekur hugurinn sér nýtt viðfang til að leika sama leikinn aftur, drama aðskilnaðar, mótþróa og ásælni. Þannig viðheldur hugurinn stöðugt aðskilnaði, kemur á milli mín og þín, mín og Guðs. Hugmyndaheimurinn rænir augnablikinu og við samsömum okkur hinu fallvalta hugsun, tilfinningu, Prakriti, Maya. Og þetta gerist á svo fíngerðan hátt að það er erfitt að átta sig á því.
     Mótstaða eða mótþrói gagnvart skynjun okkar, augnablikinu hér og nú tilheyrir alltaf egóstrúktúrnum, er varnarmekansimi og endurspeglar ótta. Mótþrói gagnvart augnablikinu núna eða þráin eftir að augnablikið sé öðruvísi en það er, er alltaf einhverskonar leikflétta hjá egóinu að viðhalda sjálfu sér. Þetta getur birst  t.d. sem frestunarárátta, það er aldrei rétti tíminn að lifa til fulls. Við sláum lífinu á frest. Mótþrói gagnvart egóinu styrkir það. Í nánd við egó hvort sem er okkar eigið eða annara er best að líða sem lækur að lægsta punkti. Aldrei að berjast við egóið. Egó kallar á egó til að viðhalda sjálfu sér. Það þarf á mótstöðu að halda, mótþróa, aðskilnaði, vöntun, ótta, vörn, flótta. Það skiptir engu máli hvert innihaldið, hver sagan er. Það skiptir öllu máli að sleppa takinu á mótstöðunni sjálfri. Sátt og samlyndi er ekki frjósamur jarðvegur fyrir óheilbrigt egó. Það þrífst bara alls ekki í ljós fyrirgefningar og sátta. Eckart Tolle hefur fjallað um þetta á dásamlegan hátt í bók sinni Ný Jörð og Mátturinn í núinu. Og þar talar hann um máttin í Já-inu. Að  finna það sem þú finnur og segja já ég skynja þetta og það er allt í lagi. Að vera í sátt með því sem er eins og það er. Þá leysist egóið upp og við höfum val. Þegar við segjum já við skynjun okkar getum við valið athöfn við hæfi. Valið hvernig við bregðumst við. Hvort að við bregðumst við útfrá skilyrðingum ótta og óöryggis eða hvort að við veljum skilyrðislausa visku og kærleika.

Yoga er að fullkomna verk kærleikans í daglegu lífi.

    Í Bhagavad Gita er lögð mikil áhersla á að lausn undan þjáningunni er í hvatanum bak við athafnir okkar. Tækifæri til yogaástundunar er alltaf hér og nú.

Hugsaðu um það eitt að vinna verk þitt án þess að hyggja að árangri þess. Lát þú ekki von um ávöxt verka þinna verða þér hvöt til framkvæmda. Þó mátt þú ekki hneigjast til dáðleysis. 48. Vinn þú verk þitt Arjuna! og í samvitund vertu við hið guðdómlega. Hafna öllu, er heftir þig. Vertu samur og jafn í meðlæti og mótlæti. Jafnvægi sálar er og yoga kallað (2:47).

 Fræ frelsisins er að gera sér grein fyrir hvatanum bak við athafnir okkar og gjörðir. Að rannsaka á innri sviðum hvernig við bregðumst við heimi Prakriti / skilyrtum veruleika og Purusha / óskilyrtum veruleika. Í Bhagavat Gita er fjallað ítarlega um  hvernig manneskjan getur iðkað kærleikann í verki í athöfnum sínum og gjörðum með því að eigna sér ekki ávexti gjörða sinna.. Að gefa athafnir og gjörðir Guði, æðri mætti, einingarvitund alls sem er. Að gefa og þjóna í kærleika án þess að vera háð útkomunni. Að afsala sér ávöxtum gjörða sinna. Það gerist hið innra. Þetta er kjarninn í Bhagavat Gita, handbók athafnanna.
     Athafnir eru í tungumálinu túlkaðar með sagnorðum sem tjá ævinlega virkni. Manneskjan er virk í eðli sínu. Baghavad Gita vísar leitandanum þá leið að gerandi athafnanna hverfur. Dansarinn hverfur. Dansinn dansar. Leikarinn hverfur. Leikurinn leikur. Söngvarinn hverfur. Söngurinn syngur.  Það er ekkert ég sem geri, skapa, iðka. Athöfnin er. Lífið lifir sig. Og eftir standa þannig sagnorðin, virknin sjálf, sköpunarkrafturinn. Í daglegu lífi þekkjum við öll athafnir eins og að borða, að sofa, að hugsa, að ganga, að tala, að gefa, að þiggja, að skapa. Yogavísindin hvetja okkur til að vera vakandi og rannsaka hvatann bak við athafnir okkar. Jesú orðaði þetta svona, það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.  Ef að hvatinn er eigingjarn þá missir athöfnin marks og það er synd. Þannig er í yogavísindunum talað um synd sem hvatann bak við athafnirnar ekki athöfnin sjálf. Maður með hníf getur skorið upp og bjargað mannslífi eða ógnað og drepið fer eftir hvatanum bak við gjörðina. Tökum nærtækara dæmi, hver er hvatinn á bak við það sem við segjum? Hver er hvatinn bak við athöfnina að borða? Erum við meðvitað að hlúa að líffærunum með þakklæti fyrir þeirra góðu athafnir, sköpunarkraftinn og þar með að gefa athöfnina Guði eða erum við að borða til að fylla upp í vöntunartilfinningu, borða í græðgi, borða til að gleyma, borða til að deyfa, borða til að fylla uppí aðskilnaðinn, borða fyrir egóið. Eða erum við að borða meðvituð um þá miklu gjöf sem lífið er og gefum athöfnina Guði. Eða að hugleiða. Hver er það sem hugleiðir? Erum við að hugleiða til að öðlast eitthvað? Fyrir okkur? Uppljómun?
 Einn kennari í búddísku hefðinni orðaði uppljómunarreynsluna svona. “Það er kanski ekki þannig að þú verðir frjáls. Heldur öðlast allt frelsi undan þér”. Allt öðlast fresli undan hugmyndum okkar um það. Búdda var eitt sinn spurður “Hvað hefur þú grætt á hugleiðslu?” Búdda svaraði “alls ekki neitt” Ó þú blessaði hvað er þá gott við þetta? “ “Leyf mér að segja þér frá því sem ég tapaði í hugleiðslu. Ég tapaði veikindum, reiði, þunglyndi, óöryggi, byrði ellinnar, óttanum við dauðann. Það er það sem er gott við hugleiðslu og sem leiðir til Nirvana” Þetta er kjarninn í kennslu Búdda að sleppa takinu. Hann uppljómaðist og eignaði sér ekki reynslu sína fyrir sig heldur helgaði líf sitt því að hjálpa öllum lifandi verum að lifa án þjáningar.

Hin helga rós í fullum blóma.

    Nú erum við komin að hinum lóðrétta ási trúarvitundarinnar. Í öllum andlegum leiðum eru leitendur sem iðka helga þögn og einveru. Hin raunverulega kyrrðarvaka er hið innra. Hin raunverulega ein-vera er að vera eitt með því sem er, er samvera án átaka. Í kyrrðinni hið innra þegar hreyfingar hugans hljóðna gerist það áreynslulaust. Þar er hin helga þögn, þar eru engin átök. Þar förum við handan við traust og vantraust og lifum í trú. Þar er trúarvitundin, núvitundin, samvitundun, einingarvitundin, Kristsvitundin, Búddaeðlið, veruleikinn og náðin, Guð í kyrrðinni hið innra. Þar er fullkomin sátt, kyrrð, friður. Þar sleppum við takinu á allri mótstöðu áreynslulaust. Þar er nánd og kærleikur og meðvitund um rósablöð og þyrna og handan við rósablöð og þyrna. Handan við tvíhyggju hugans. Meðvitund um að þyrnar geta breyst í rósablöð og rósablöð í þyrna. Fer eftir því hvernig við bregðumst við skynjun okkar. Ef að við búum til hugmynd úr henni og  notum hana til að réttlæta aðskilnað þá verður hún þyrnir á vegi okkar. Ef að við sleppum takinu á heimi hugmyndanna, sleppum takinu á  fortíð og framtíð, sleppum takinu á sjálfhverfum löngunum og hreyfingum hugans, þá þekkjum við hver við raunverulega erum. Þá elskum við náungann eins og sjálf okkur. Lifum kærleiksboðskapinn til fulls. Þekkjum Guð í hvort öðru. Og þá er lífið ekki bara dans heldur líka dans á rósum.

Bækur:
The Yoga Sutras of Patanjali; Translation and commentary by Sri Swami Satchidananda.
Yogasútrur Patanjali í þýðingu Gunnars Dal
The Dhammapada: Introduced and translated by Eknath Easwaran
The Bhagavad Gita; Introduced and translated by Eknath Easwaran
Mátturinn í núinu eftir Eckhart Tolle í þýðingu Sigurðar Skúlasonar