Lifandi fæði - skapandi líf
Í mars 2005 og febrúar 2007 fór ég á Ann Wigmore Natural Health Institude í Puerto Rico. Innan um pálmatré og túrkisbláan sjóinn gefst þar tækifæri til að hreinsa líkamann með lifandi fæði og ristilþvotti. Þar er boðið upp á 2 vikna námskeið árið um kring og fólk kemur víða að til að fræðast um lifandi fæði lífstílinn og njóta hans. Margir hafa þar á mjög skömmum tíma hlotið undraverðan bata við algengum og alvarlegum sjúkdómum. Aðrir koma til að njóta hvíldar og gefa líkamanum tækifæri til heilunar. Við sólarupprás dag hvern var farið í jóga undir pálmatrjánum á ströndinni, eftir jóga tók við nýpressaður hveitigrassafinn. Aðaluppistaðan í matseðlinum hjá Dr. Ann Wigmore er okrusúpa, korn- og kálsafi og hveitigrassafi. Samkvæmt kenningum hennar og reynslu má lækna flestalla sjúkdóma með réttu mataræði og hreinsun líkamans. Fæða hefur reyndar í þúsundir ára verið notuð til lækninga. Hippokrates (460? – 377? F.Kr.) faðir vestrænu læknisvísindanna sagði “láttu fæðuna vera meðalið þitt og meðalið þitt vera fæðuna” og mælti með vatni, lofti og sól til heilunar. Lifandi fæða er lifandi dæmi um það og hefur hjálpað tugþúsundum manna út um allan heim til að læknast af sjúkdómum og lifa heilbrigðu og hamingjusömu lífi. Allt snýst þetta um orku og jafnvægi. Að skapa aðstæður þar sem næring og hreinsun haldast í hendur. Í jógafræðunum, sem eru mörgþúsund ára gömul, er lögð mikil áhersla á hreinsun og jafnvægi til að hlúa að orkubúskap líkamans. Jóga þýðir heild eða eining og vísar til þess að allt lífið á jörðinni og í alheiminum er ein heild. Við erum ekki aðskilin frá heildinni. Mér fannst mjög merkilegt að uppgötva eftir 3 daga á lifandi fæði hvað hugurinn var djúpur og tær og ég fann fyrir sterkri tengingu við móður jörð. Mér leið eins og ég hefði verið að hugleiða í langan tíma. Einn daginn rakst ég é eftirfarandi skrifað á töflu úti við veröndina “ Fæðan er ástarbréf frá guði. Hún er skrifuð með geislum sólarinnar og hún segir ég elska þig…” það var einmitt þetta sem ég upplifði svo sterkt. Maturinn var svo kærleiksríkur svo fullur af ljósi og lífsorku. Það hafði undursamleg áhrif að lifa á ástarbréfinu eins og það er skrifað af geislum sólarinnar og fætt af móður jörð. Eftir hálfan mánuð á heilsusetrinu fannst mér ég vera með orku eins og þegar ég var fimm ára. Ég fann fyrir djúpri einingu með því sem er og skynjaði hvað það er mikilvægt að vernda vistkerfi jarðarinnar og lifa í jafnvægi við náttúrulögmálin.
Lifandi fæði hvað er það?
Lifandi fæða er sannkallað heilunarfæði. Lifandi fæða er trefjarík og næringarrík, full af vítamínum, steinefnum og rík af ensímum og lífsorku. Hún er ekki hituð uppfyrir 40 - 48 gráður því þá eyðileggjast ensímin og mörg vitamin og steinefni. Hráefnið er lífrænt grænmeti, ávextir, grös og jurtir, fræ, korn, baunir og hnetur þari og söl. Fæðan er gerð auðmeltanleg með því að mauka, gerja, spíra og leggja í bleyti. Fræ og baunir eru lögð í bleyti eða látin spíra. þegar þau eru lögð í bleyti verður lífsorka þeirra virk. Við spírun eykst næringargildi um 300 – 1200% .
Lifandi fæða gengur út á það að líkaminn fái sem mesta orku á sem auðveldastan hátt. Fæðan er rík af ensímum þ.a. líkaminn þarf að skaffa minna af ensímum í efnaskiptin. Fæðan er auðmeltanleg og þess vegna þarf líkaminn lágmarksorku í meltinguna. Við það verður til mikil umframorka sem líkaminn nýtir til heilunar. Lifandi fæða skilur ekki eftir sig eiturefni í líkamanum. Þvert á móti þá stuðlar hún að heilbrigri losinu úrgangsefna frá frumunum. Líkaminn afeitrast og líkamsstarfssemin verður léttari fyrir vikið. Þar með verður einnig til umframorka sem líkaminn notar til heilunar. Það er einmitt það sem lifandi fæði gengur út á að borða mat sem gefur hámarksorku á sem auðveldastan hátt fyrir líkamann og þannig að til verði umframorka sem líkaminn nýtir til heilunar.
Eitrun og skortur orsök allra sjúkdóma
Dr. Ann Wigmore byggir kenningar sýnar um lifandi fæði á áralangri reynslu náttúrulækninganna en samkvæmt þeim er aðalorsök sjúkdóma skortur og/eða eitrunarástand. Orsök þessa er aðallega matarvenjur sem hafa lamandi áhrif á ristilinn og alla líkamsstarfsemina. Með því að breyta þeim og hreinsa líkamann getum við umbreytt lífi okkar og skapað jafnvægi. Ann Wigmore var sannfærð um að rekja mætti orsök flestallra sjúkdóma til eitrunarástands eða óvirkni í ristli. Samkvæmt hennar kenningum, sem byggja á rannsóknum og langri reynslu, er t.d. allt ofnæmi meltingarvandamál. Með því að hlúa að ristlinum með heilbrigðri fæðu, hreyfingu, jákvæðum huga og ristilhreinsun eða ristilþvotti getum við náð fullri heilsu og haft aðgang að allri þeirri orku sem við þurfum á að halda. Ann Wigmore var sjálf lifandi dæmi um þetta. Hún læknaði sig af krabbameini tvisvar, og um áttrætt þurfti hún einungis að sofa uþb. 4 tíma, hár hennar hafði náð aftur upprunalegum brúnum lit og hún hafði útgeislun eins og ung kona. Hún lést í húsbruna rúmlega áttræð. Ævi hennar var oft erfið en hún trúði á guð og náttúruna og helgaði líf sitt því að hjálpa öðrum. Hún fæddist 1909 og ólst upp í Litháen á stríðstímum hjá ömmu sinni sem var náttúrulæknir þorpsins. Snemma tók hún að sér mikla ábyrgð og aðeins 7 ára gömul smalaði hún einsömul geitum í bithaga og gætti þeirra þar. Hún var fjarri byggð og einmana en þá tók hún að kynnast dýrunum og náttúrunni og nándin við dýr og náttúru var henni góður skóli og grunnur sem hún leitaði í æ síðan. Leið hennar lá til Bandaríkjanna þar sem hún menntaði sig og stofnaði 2 heilsusetur byggð á kenningum sínum og reynslu af lifandi fæði og hreinsun líkamans. Hún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín í þágu mannkyns.
Vani eða val?
Það er róttæk breyting að breyta matarvenjum sínum því það kallar okkur til meðvitundar og endurskoðunar á ríkjandi venjum og daglegu lífi. Matarvenjur í okkar siðmenntaða vestræna heimi eru orðnar ansi langt frá því að vera fæða til heilunar eins og Hippokrates mælti fyrir forðum. Síðastliðin 100 ár hefur orðið úrkynjun og hrörnun í matarvenjum víða í hinum vestrænu velmegunarríkjum. Í dag fynnast um 5000 fleiri leyfð aukaefni í mat en fyrir 50 árum. Ótalin eru aukaefni sem ekki eru leyfð í matvælaframleiðslu. Maturinn er mikið unninn, niðursoðinn, frystur, geislaður osfrv. Í landbúnaði hefur verið notað skrodýraeitur, lyf, hormonar og erfðabreytt matvæli gera okkur lífið leitt sem og mikill sykur, mikil fita, aukin neysla á kjöti, gerilsneyddum mjólkurvörum, og hvítu hveiti. Allt veldur þetta álagi í líkamasstarfseminni og hátt sýrustig og hátt kólesteról hrjáir margan búkinn. Yogi Bhajan sagði: Fyrst skapar þú vanann, svo skapar vaninn þig.
Út með ruslið!
Eitrun, rotnun og gerjun í ristlinum orsakast að mestu leiti af óheilbrigðum matarvenjum. Við borðum mikið af “dauðum” mat þar sem lífsorkan er ekki virk. Dr. Walkman nefnir í bók sinni “Colon Health” matarvenjur annan af tveimur glæpum siðmenningar. Við borðum of hratt og of mikið. Við borðum mat sem er dauður og næringarsnauður. Hinn glæpurinn sem hann nefnir er að við förum ekki á klósettið þegar við þurfum! Samkvæmt náttúrunni eigum við að hafa hægðir u..þ.b. 20 mínutum eftir að við borðum. Það þýðir fyrir marga kanski 4 sinnum á dag. Við sleppum með einu sinni á dag en ef það er sjaldnar gefur það til kynna að huga þarf að hreinsun. Líkaminn er stöðugt að tala við okkur og ýmis einkenni gefa til kynna að líkaminn þarfnast hreinsunar t.d. meltingartruflanir, slæm líkamslykt, andremma, táfýla, svitalykt, ofnæmi, astmi, eyrnabólgur, hjartavandamál, þunglyndi, ófrjósemi ofl. Ef við finnum einhver af þessum einkennum er það merki um að við þurfum að hreinsa líkamann, fara út með ruslið. Það geta verið allt frá 2 – 20 kg af úrgangsefnum sem þarf að hreinsa úr ristlinum.
Ristillinn er eins og pípulögn. Þar fer fram lokaupptaka næringarefna inní blóðrásina og þar fer fram losun úrgangsefna. Ekkert pípulagningarkerfi getur fúnkerað ef úrgangsefnum er leyft að safnast saman og stífla kerfið. Ristillinn er þar engin undantekning. Margir hafa notað svokallað hveitilím til að móta skálar t.d. með því að setja utan um blöðru og þegar það harðnar verður eftir skel sem ekki haggast. Ímyndum okkur nú ristilinn þar sem fer fram lokaupptaka næringarefna og losun úrgangsefna. Hreyfingin í ristlinum er eins og þegar við kreistum saman lófann. Þannig flytur ristillinn úrgangsefni að endaþarmi. En ef við borðum mikið hvítt hveiti og pasta þá myndast eins og rör inni í ristlinum sem haggast ekki og þar verða eftir úrgangsefni sem gerjast og rotna og skapa eiturástand í líkamanum. Í ristlinum eru þrýstipunktar eins og við þekkjum á fótum og höndum og tengjast þeir líffærunum og líkamsstarfseminni. Ímyndum okkur nú eiturástand í ristlinum t.d. þar sem er reflexpunktur fyrir lifur. Þá er líklegt að lifrastarfsemin skaðist vegna eituráhrifanna frá ristli. “Í hvert sinn sem úrgangsefni hlaðast upp í ristlinum, sem veldur eitrun, rotnun og gerjun, verður truflun á vikomandi svæði í ristli og tilheyrandi svæði í líkamsstarfseminni” Dr. Walker. Góðu fréttirnar eru þær að við getum skapað aðstæður þar sem ristillinn kemst í upprunalegt ástand. Dr. Ann Wigmore nefnir 4 atriði sem grunn að heilbrigðum ristli
1. Heilbrigð og næringarík fæða
2. Hreyfing
3. Úrvinnsla tilfinninga
4. Ristilhreinsun
Við erum skapandi veruleiki
Fæðan hefur mikil áhrif á hugann. Í jógafræðunum er talað um sattviska fæðu sem er fæða sem eflir meðvitund okkar, kærleika og góðvild, jafnvægi og tengsl við sjálf okkur og umhverfi okkar. Sattva þýðir helgi og sattvisk fæða byggir að mestu á lifandi fæði og hráfæði. Tilgangur okkar með næringunni er að efla andlegan þroska okkar og einingu í Guði. Dr. Gabriel Cousens segir í bók sinni “ Spiritual nutrition, six foundation for the avakening of Kundalini and spritual life” að það sem við raunverulega þurfum á að halda úr fæðunni eru lífsorkan eða prana eins og hún er nefnd í jógafræðunum. Lífsorkuna fáum við úr fæðunni, lofti, sól, jörð og alheiminum (cosmic energy). Hann segir m.a. að við fáum aðeins um 10% af þeirri orku sem við þurfum á að halda úr fæðunni. Lífsorkan flæðir til okkar frá alheiminum og sköpunarverkinu. Við öndum henni að okkur með lungum og húðinni við böðum okkur uppúr henni í sólarljósinu við drögum hana til okkar með fæturnar á jörðinni. Orkustöðvarnar miðla alheimsorkunni til okkar og innkyrtlarnir heiladyngull, heiladyngjubotn, og heilaköngull virka sem loftnet og straumbreytir sem miðla til okkar orku á mjög hárri tíðni.
Í jóga er fæðunni skipt niður í 3 flokka: Sattvisk, Rajasisk og Tamasisk.
Sattvisk er fæða inniheldur mikið magn af fíngerðri lífsorku, skapar jafnvægi og hjálpar okkur að leita inná við. Hún er alla vega 80% lifandi fæða eða hráfæði (bioaktive) u.þ.b. 20% hitað (biostatic). Allt lífrænt úr jurtaríkinu. Fæðan er næringarík, auðmeltanleg og skilur ekki eftir sig úrgangsefni í líkamanum. Hún skapar jafnvægi og friðsæld. Samkvæmt Ayurvedisku fræðunum er sattvic fæða t.d. allir ávextir, grænmeti, korn, gras, baunir, mjólk (óunnin), hunang og smáskammtar af brauði og hrísgrjónum.
Rajasisk fæða hefur meiri áhrif á taugakerfið. Við finnum samstundis aukna orku, orku til framkvæmda í efnisheiminum, hugurinn leitar út á við og orkan er ekki í fullkomnu jafnvægi. Fæða t.d. kaffi, te, kjöt, stórir skammtar af sterkum kryddum eins og t.d. hvítlauk og lauk. Rajasisk fæða getur verið vanabindandi og nærir matarfíknina. Á endanum skapar hún ójafnvægi og leiðir til heilsubrests og hrörnunar.
Tamasisk er fæða sem rænir okkur lífsorkunni. Allur unnin matur, geislaður, ofsoðinn, bakaður, upphitaður, osfrv. Áhrif fæðunnar er hrörnun og doði. Allur skyndibitamatur fellur undir þennan flokk og t.d. flestallar kjötvörur nema nýslátrað. Þessi matur skilur eftir sig mikið af úrgangsefnum og eiturefnum í líkamanum sem hafa áhrif á huga okkar og taugakerfið. Þessi matur veikir lífsorku okkar sem leiðir til krónískra sjúkdóma og hrörnunar.
Lífsorkan er kjarni næringarinnar sem við þurfum á að halda. Lifandi fæða dregur nafn sitt af auðgi lífsorkunnar í fæðunni. Jógaæfingar, öndun og slökun efla lífsorkuna og þannig er jógaiðkunin okkar andlega mötuneyti. Hugurinn þarf mikla orku til að hljóðna. þegar við hvílum í dýpri vitund, opnum huga, djúpri kyrrð, þá losnar um gömul mynstur í líkama, tilfinningum og huga. Gömul mynstur ótta og óöryggis leysast upp og orkan sem í þeim er bundin leitar uppruna síns og verður eitt með lífsorkunni. Við finnum fyrir auknu frelsi og meiri lífsorku og vellíðan. Sattvískt fæði, hráfæði og lifandi fæði stuðla að þessu bataferli. Um leið og við breytum matarvenjum sköpum við nýjar aðstæður til vaxtar og þroska. Ég læt Dr. Ann Wigmore hafa lokaorðin “Þess vegna mikilvægt að borða þ.a. við fáum hámarksnæringu og hreinsa líkamann sérstaklega ristilinn. Við það þá fer af stað bataferli í líkamanum og við tengjumst tilveru okkar hér á jörðinni og tilgangi: að vaxa og þroskast í heilsu, sköpun, visku og kærleika.”