Menu:

Hvað segja nemendur um námið?

 

YKN útskrift 2010
  

Yogakennaranámið var ómetanleg reynsla.  Betri leið til að rækta líkama og sál er vart hægt að hugsa sér.  Námið hjálpar manni að kynnast sjálfum sér og lífinu öllu á nýjan og djúpan máta.  Þetta er svo miklu meira en bara yogastöður og  ég hef oft sagt að þetta nám hafi verið fjárfesting fyrir lífstíð.  Kannski eru bestu meðmælin þau, að nú í dag get ég alls ekki hugsað mér tilveruna án þessarar reynslu.
 Ég fór  fyrst og fremst í yogakennaranámið til að rækta sjálfa mig, ekki endilega til að verða starfandi yogakennari, en að námi loknu var ég hins vegar orðin brennandi af áhuga og til í allt.

Snæbjörg Sigurgeirsdóttir yogakennari og aðjúnkt Listaháskóla Íslands

 

Yogakennaranámið hjá Ástu er eitt af þeim áhrifaríkustu og bestu skrefum sem ég hef tekið í lífi mínu. Mér fannst námið einstaklega vel upp byggt og innihaldsríkt. Yogavísindin eru stórmerkileg og þau hjálpuðu mér að skilja margt í sambandi við sjálfa mig og ná sáttum við lífið á margan hátt. Auk þess hefur Ásta sem reyndur kennari einstaka hæfileika í að miðla þessum ævafornu vísindum með því að skapa nærandi umhverfi og veita góðan stuðning fyrir nemendur. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa stigið þetta skref. Ljós og friður.

Andrea Elín Vilhjálmsdóttir yogakennari og nemi í Háskóla Íslands

 

Að taka þátt í yoganámskeiði Ástu var mér dýrmæt reynsla og eitt það besta skref sem ég hef tekið á lífsleiðinni. Enda fjölbreytt og metnaðarfullt námskeið, sem veitti mér góða innsýn í heim yogavísindanna, góðan grunn til að byggja á og hvatningu til að vilja læra meira og meira. Námskeiðið veitti mér líka sérstakan innblástur til að innleiða yoga í skólann og kynna nemendum mínum fyrir yoga inni í kennslustofunni. Ásta er góður, einlægur og áhugasamur kennari og mikill viskubrunnur. Hún sáði fræjum sem enn eru að springa út og halda áfram að vaxa ekki síst með þeirri daglegu yogaiðkun sem ég lærði að tileinka mér á námskeiðinu. Hjartans þakkir fyrir frábært námskeið.

Sigríður Thorsteinsson grunnskóla- og yogakennari

 

 

Yogakennaranámið var mér dýrmæt persónuleg reynsla. Þetta var "stefnumót við sjálfan mig" og opnaði mín innri augu en frekar á hver ég er og hvernig ég tikka, oft erfitt, en gífurlega gefandi og þroskandi. Yoganámið var einn alsherjar snertipúnktur Anda, Hjarta og Líkama. Ásta gaf "miskunarlaust" af sér, var mjög styðjandi, kærleiksrík og ákveðin á sama tíma. Þetta var dásamlegur tími. Ásta er hafsjór af þekkingu og fagmennsku á þessu sviði. Yoga námið var hundrað prósent þess virði og vel rúmlega það. Peace

Bjarni Þórarinsson yogakennari og starfsmaður Barnarverndar Reykjavíkur

 

 

...ég ákvað að læra meira í þessum fornu fræðum. Ég er með vefjagigt og fann strax að ástundunin gerði mér gott bæði andlega og líkamlega. Ég var ánægð með námið hjá Ástu og það veitti mér ótal margt sem nýtist mér í dag bæði heilsufarslega sem og í lífinu almennt. Það sem mér finnst standa upp úr er að ég lærði aðferðir til að komast á þann stað í lífinu sem veitir mér það frelsi að finna tilfinningu þakklætis í hjarta mínu fyrir það sem ég hef hér og nú (núið) í stað þess að fárast yfir því sem ég hef ekki og getur ekki orðið. Namaste

Dagrún Þorsteinsdóttir yogakennari og félagsráðgjafi

 

 

Ekki er erfitt fyrir mig að mæla með Yoga kennaranáminu. Efnistökin og allur stuðningur kennarans og samnemenda stuðla að góðri útkomu. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa lagt upp í þetta ferðalag þar sem allt verður að lærdómi.

Signý Einarsdóttir yogakennari

 

 

Það var mikil áskorun fyrir mig að demba mér út í yogakennaranám hjá Ástu. Já, það að fara út úr mínum þægindahring var átak, en þegar ég horfi til baka sé að það var svo margt sem brotnaði upp sem þjónaði mér ekki lengur. Draumar sem eingöngu höfðu verið á sveimi í höfðinu á mér og í hjarta mínu kallaði ég til mín í efnisheiminn. Draumurinn var að miðla yoga til þeirra sem þjást af geðröskunum og hef ég verið að kenna yoga í eitt og hálft ár í Hugarafli sem er virknimiðstöð fyrir fólk með geðraskanir. Ásta er frábær kennari, kærleiksrík og uppfull af fróðleik. Hún studdi mig mjög vel í náminu og gat ég alltaf leitað til hennar, væri eitthvað brennandi á mér. Hún er mjög nákvæm í sinni nálgun á efninu og kemur öllu vel til skila vegna þess að hún er svo vel undirbúin sjálf.

Hildur Sæmundsdóttir yogakennari, dáleiðslutæknir og starfsmaður hjá Hugarafli.

 

 

„Eftir margra ára draum að fara í jóganám dreif ég mig loksins árið 2010. Ég skoðaði vel þá kosti sem voru í boði fyrir yoganám hérlendis og erlendis. Niðurstaðan var sú að mér leist best á það sem Ásta Arnardóttir bauð upp á. Það sem heillaði mig var skipulagið, allt var útskýrt frá því að maður byrjaði í ágúst fram að útskrift í desember. Allar bækur sem maður þurfti að lesa voru listaðar upp á netinu.  Námið var þétt og stígandi sem fékk mann til að skoða allar tilfinningarnar yfir þessa 4 mánuði. Öll svör og samskipti voru mjög skýr og á sama tíma hlý.  Ásta sjálf er gullmoli með mikla visku af jógaspekinni. Hún er róleg og yfirveguð og gríðarlega þægilegur kennari með góða nærveru. Ég get svo sannarlega mælt með Ástu og yoga náminu sem hún bíður upp á.

Bjargey Aðalsteinsdóttir yogakennari og íþróttafræðingur

 


 

YKN Skálholtsbúðir 2011