Menu:

Að þekkja það sem er

 

Ásta dvaldi veturinn 2006 í 7 vikur  á Spirit Rock Meditation Center og í eyðimörkinni Yucca Walley við hugleiðslu þar sem Jack Kornfield var meðal kennara. Greinin birtist í Ganglera, tímariti um heimspeki og andleg mál, haustið 2006 (síðasta hefti, 80.árgangur) og er byggð á fyrirlestri sem hún hélt fyrir Guðspekifélagið 29. apríl 2006.

Hugmyndir og veruleiki

Þegar ég var að undirbúa fyrirlesturinn þá mundi ég eftir augnabliki á leikskóla í Höfn í Hornafirði fyrir mörgum árum. Ég sat í hring með 4-5 ára og við vorum að hittast í fyrsta sinn. Tilefnið var námskeið fyrir nemendur og kennara sem ég kallaði skapandi starf með börnum. Ein lítil horfið á mig full eftirvæntingar og spurði, “ ert þú Ásta?” Ég horfði á hana, við mættumst í augnablikinu og eina sem ég gat sagt var “ góð spurning?” Hlutverkin snérust við í þessu augnabliki ég varð nemandinn, barnið kennarinn. Er ég Ásta? Hver er ég eða þetta sem ég kalla ég? Er ég líkaminn? Er ég hugsanirnar sem koma og fara? Er ég tilfinningarnar sem koma og fara? Er ég sagan um líf mitt sem ég rifja upp með vissu millibili? Hlutverkin sem ég tek að mér í lífinu? Er ég kennarinn? Nemandinn? Hver er þessi veruleiki sem ég kalla Ásta?
   Búdda sagði eitthvað á þessa leið “ef þú heldur að eitthvað sé einhvernveginn þá er það örugglega öðruvísi”. Hugmyndir okkar um veruleikann er ekki veruleikinn sjálfur. Hugmynd mín um mig er ekki ég! Hugmynd mín um þig er ekki þú! En hugmyndirnar geta vísað í veruleika eins og vegvísir eða landakort. Veruleika sem við getum uppgötvað. Og eina tækifærið sem við höfum til að uppgötva veruleikann er í núinu, hér og nú. Búdda hvatti fólk til að sannreyna allar kenningar og leiðbeiningar, hann varaði við að trúa í blindni og hvatti þess í stað til þess að hver og einn færi í leiðangurinn að uppgötva veruleikann, þekkja það sem er eins og það er. Kjarninn í kennslu hans fjallar um þjáninguna (dukkha á Pali), orsök hennar og hvernig við getum losnað undan allri þjáningu. Laus undan allri þjáningu öðlumst við uppljómun, Nirvana (á Sanskrit), Nibbana (á Pali). Í búddísku hefðinni er uppljómun stundum lýst sem hamingju og friðsæld en með fullri meðvitund um að orð ná ekki að lýsa uppljómunarreynslunni. Thich Nhat Hanh tók  eitt sinn dæmi um þetta og líkti þessu við að þekkja bragðið á mangó. Það er hægt að lýsa bragðinu á mangó en það er ógerningur að þekkja bragðið á mangó nema að bragða á  ávextinum.  Ef þú hefur aldrei bragðað mangó þá er sama hvað ég lýsi því lystilega vel,  það nær aldrei veruleikanum sjálfum, reynslunni af því að þekkja bragðið.  Í búddisku hefðinni er iðkun afar mikilvæg til að öðlast beina upplifun af veruleikanum hér og nú og ef vel gengur að sannreyna okkar sanna eðli.

Hvað er hugleiðsla?

Í sinni tærustu mynd er hugleiðslan einfaldlega að vera með því sem er eins og það er. Til þess að við getum verið með því sem er verðum við að vera til staðar í núinu. Hugleiðsla er einföld aðferð til að iðka aðgát og næveru hér og nú. Hugleiðsla er andlegi meltingarvegurinn og hugleiðslusetrið andlega mötuneytið. Á sama hátt og meltingin sér um matinn og skilar okkur næringu er hugleiðslan hinn helgi meltingarvegur, eða meltingin á  Guði eins og Dr. Gabriel Cousens orðar það, og skilar okkur andlegri næringu, nánd, kærleika, visku, frelsi, örlæti, góðvild, trausti, þakklæti. Oft hefur mér fundist  íslenska orðið hugleiðsla vera á einhvern hátt ófullnægjandi, en þegar ég skoða það betur vísar það ágætlega í veruleikann að hugleiða. Að leiða hugann að augnablikinu hér og nú. Ég hef stundum sett spurningamerki við orðið hugleiðsla vegna þess að það feli í sér tilvísun í leiðslu, draum eða trans, en um leið minnir það á möguleikann í leiðslunni, möguleikann í draumnum, möguleikann í transinum, að vakna upp, að ranka við sér, að leysast úr álögum. Það er einmitt það sem gerist við iðkun hugleiðslu, við verðum meðvituð um þann trans eða þá leiðslu sem að hugurinn leiðir okkur í og við tökum síðan sem veruleikann sjálfan. Þegar við setjumst á púðann eða erum með því sem er eins og það er handan við hugmyndir okkar um veruleikann, vöknum við af drauminum um veruleikann og erum til staðar í beinni upplifun af því sem er að gerast. Enska orðið meditation segir líka heilmikið til um hvað hugleiðsla er. Meditation vísar í miðjuna (sbr. Mediterranean / miðjarðarhaf ). Meditation er þar með það sem hjálpar okkur að vera í miðjunni, að vera í jafnvægi. Þegar við erum í jafnvægi er auðveldara að vera með skynjun okkar eins og hún er. Skynjunin okkar er síbreytileg við sjáum, heyrum, finnum bragð og lykt, finnum líkamlega skynjun, tilfinningar og hugsanir. En það sem kemur okkur úr jafnvægi er ekki skynjunin sjálf heldur hvernig við bregðumst við henni. Hvaða hugmyndir við sköpum í kringum skynjun okkar og hvaða merkingu við gefum henni. Okkur finnst eitthvað gott og við höldum í það. Annað finnst okkur vont og við ýtum því frá. Sumt er hlutlaust og fer oft algerlega framhjá okkur. Hugurinn verður upptekinn af að halda í og íta frá og reyna að koma skipulagi og stjórn á upplifanir okkar. Hugleiðsla getur hjálpað okkur að vinda ofan af þessari hugarstarfsemi, hjálpað okkur að vakna upp af drauminum um lífið og gefið okkur tækifæri að vera vakandi vitund í lífinu sjálfu. Þegar við erum meðvituð um það sem er að gerast þá höfum við val. Við getum valið hvernig við bregðumst við. Gömul mynstur vanans leystast upp. Vanabundin hugform stjórna þá ekki lengur athöfnum okkar og ákvörðunum og við það skapast frelsi til að vera breytingin sem við þráum í lífinu. Við lifum sköpunarkraftinn til fulls í augnablikinu.
   Vipassana hugleiðsla er kjarninn í Theravada búddískri iðkun. Vipassana hefur verið þýtt á  ensku sem mindfulness sem við gætum þýtt sem meðvitund á íslensku eða að vera með því sem er eins og það er. Vi þýðir að sjá og passana þýðir að snerta, þannig að vipassana þýðir að sjá og snerta það sem er. Það vísar í beina upplifun og reynslu sem kristallast í því að þekkja það sem er, bragða á því, melta það.  Hugurinn í pali þýðir hugur og hjarta, til aðgreiningar frá hinum skilyrta huga og skilyrtum viðbrögðum okkar. Hugleiðsla hjálpar okkur að vera meðvituð um skilyrðingar okkar og gefur okkur beina reynslu af hughjartanu handan við allar skilyrðingar og skilgreiningar.
   Prófessor einn hafði mikinn áhuga á að læra hugleiðslu og var búinn að finna Zen meistara sem hann langaði að læra hjá. Hann hafði fengið áheyrn hjá kennaranum og var fullur eftirvæntingar, en Zen kennarar eru frægir fyrir að vera ævintýralegir kennarar og alltaf hundrað prósent í núinu.  Zen meistarinn bauð honum að drekka með sér te og prófessornum leist vel á það og beið þess spenntur að ræða um hugleiðsluna og læra allt um hana.  Zen meistarinn byrjar að hella í bollann og prófessorinn fylgist spenntur með hvernig Zen meistarinn hellir í bollann þar til hann er barmafullur. Og heldur áfram að hella í bollann. Zen meistarinn hellir og hellir og te flæðir út um allt. Prófessorinn er nokkuð óöruggur með þetta en ákveður svo að kíla á það og spyr Zen meistarann “fyrirgefðu ætlar þú ekki að hætta að hella í bollann sérðu ekki að hann er fullur?” Zen meistarinn hættir samstundis, brosir og hneigir sig “ þakka þér fyrir, mig langaði bara að sýna þér að það er ekki hægt að fylla fullan bolla”.  Þetta var fyrsta kennslustundin í hugleiðslu. Þannig er með lífið stundum er bollinn okkar algerlega fullur af hugmyndum um lífið.  Þegar við hugleiðum tæmum við bollann og það skapast rými fyrir gjafir lífsins hér og nú.

Dharma hvað er það?

Hugleiðslusetrin í tengslum við Insight meditation eða Vipassana eru meðal annars Gaia House í Englandi, Insight Meditation Society (IMS) í Massachusetts í Bandaríkjunum og Spirit Rock Meditation Center rétt hjá San Francico í Bandaríkjunum en Jack Kornfield er einn af stofnendum þess. Jack Kornfield er mörgum kunnur fyrir bók sína “A path with heart” sem kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Skúlasonar 2004. Ég hafði setið nokkrar kyrrðarvökur (retreats) í Gaia House í Englandi þegar ég fór í 7 vikur að hugleiða og lagði leið mína til Spirit Rock og Yucca Walley í Bandraríkjunum. Ég byrjaði á að sitja mánaðar kyrrðarvöku á Spirit Rock og í kjölfarið eina viku  undir yfirskriftinni Interfaith mindfulness þar sem fólk kom saman frá ýmsum trúarbrögðum. Síðan flutti ég mig um set til Yucca Walley en þar var Jack Kornfield meðal leiðabeinanda á 10 daga kyrrðarvöku.
   Kyrrðarvaka er yfirleitt haldin í þögn (the Noble silence) utan viðtala við kennara, leiðbeininga kennara og dharmahugleiðinga kennara á kvöldin. Iðkendur koma saman og skuldbinda sig til að fylgja leiðarljósum sem miða að því að lifa göfugu lífi án ofbeldis. Leiðarljós kyrrðarvöku eru fimm:
1.    að forðast það að drepa
2.    að forðast það að stela
3.    að forðast það að misnota kynlíf
4.    að forðast það að ljúga
5.    að forðast neyslu á  eiturefnum eins og alkahóli og eiturlyfjum.
   Skipulag dagsins á kyrrðarvöku er  einfalt og eina ábyrgðin að vera hér og nú. Hefðbundinn dagur hefst á hugleiðslu klukkan hálfsex að morgni og lýkur  um hálftíu að  kveldi. Hugleitt er til skiptist sitjandi og gangandi, þrjár máltíðir eru yfir daginn og þá er hugleitt borðandi og einu sinni á dag eftir matinn er vinnuhugleiðsla. Á kvöldin er hlustað á dharmahugleiðingu. Dharma þýðir kennsla og iðkun en vísar líka í undursamlega og beina upplifun af meðvitund okkar þegar hún er laus undan græðgi, hatri og blekkingu. Dharmahugleiðing fjallar um hugleiðsluna, iðkunina og kenningar Búdda, sem kristallast í hinum fjórfalda sannleika  (the Four Noble Truths) og hinni göfugu áttföldu leið (the Noble Eightfold Path). Einn kennarinn minn úti sagði reyndar áður en hann hóf dharmahugleiðingu sína eitt kvöldið  að í grunninn mætti lýsa búddískri iðkun með tveimur orðum “ let go “, á íslenskunni eru þau þrjú, “ að sleppa takinu “ eða “ að gefa eftir “. Þannig að þessi umfjöllun gæti verið ansi stutt, en eitt og annað hefur verið sagt og skrifað um búddíska hugleiðslu og iðkun og margt af því getur hjálpað á andlegri leið.  Á íslenskunni vísa orðin þrjú í gjöfina þegar við gefum eftir, sleppum takinu. Þessi gjöf er gríðarlega dýrmæt og hefur verið nefnd ýmsum nöfnum eins og nirvana eða hugljómun.
   Í fyrstu kennslustund sinni um þjáninguna og hvernig við losnum undan þjáningu notaði Búdda módel læknavísindanna á þeim tíma. Læknar störfuðu eftir þessu módeli; að greina vandamálið, skilgreina orsökina, formúlera lækninguna og segja til um hvað þarf að framkæma. Búdda tileinkaði sér þessa formúlu þegar hann setti fram fjórfalda sannleikann (the Four Noble Truths). Þannig beindi hann athyglinni að praktískri leið til lækninga fremur er heimspekilegum vangaveltum um lífið.
1. Það er þjáning í lífinu.
Hér er ekki átt við að lífið sé þjáning heldur að það sé þjáning í lífinu. Í hinni skilyrtu tilveru er þjáning. Allir upplifa þjáningu. Við getum fundið fyrir þjáningunni í því að allt breytist, líkaminn fæðist og deyr,  ástvinir koma og fara, augnablikið kemur og fer.
2. Orsök þjáningar er í huganum.
Orsökin er ekki í því hvað gerist í lífinu, heldur hvernig við bregðumst við því. Hvernig við höldum í og eigum erfitt með að sleppa takinu. Þetta helst oft í hendur við mótþróa (aversion),  ef ég held í eitthvað þá ýti ég óskjálfrátt öðru frá.
3. Það er möguleiki á að vera laus undan þjáningu
Við getum losnað undan þjáningunni, vaknað til vitundar um okkar sanna eðli, hvílt í  hughjartanu þar sem er engin barátta eða flótti eða fastheldni, þar sem við erum fullkomlega frjáls og hamingjusöm, hugurinn friðsæll og án átaka. Hamingja og friðsæld stendur okkur til boða fullkomlega óháð aðstæðum.
4. Leið út úr þjáningu er hin áttfalda leið
Góðu fréttirnar eru þær að það er leið útúr þjáningu og það er búið að kortleggja hana. Hin göfuga áttfalda leið er leið útúr þjáningu, hún lýsir átta praktískum skrefum sem hjálpa okkur að skapa aðstæður sem hlúa að andlegum þroska. Hún kortleggur hvernig við getum ræktað með okkur skilning, kærleik og meðvitund sem gerir okkur mögulegt að sleppa takinu á því sem við höldum í. Áttföldu leiðinni er stundum skipt í þrennt til hægðarauka, þ.e. viska (prasna), gott líf (sila, oft þýtt sem siðgæði) og hugleiðsla (samadhi, einnig þýtt sem einbeiting).
Hin göfuga áttfalda leið (the Noble Eightfold Path). 
1. Rétttur skilningur.
2. Rétt ætlan.
Tvö fyrstu skrefin vísa í það að þekkja fjórfalda sannleikann á persónulegan hátt, að þekkja sjálfan sig og þjáninguna og orsök þjáningarinnar og vitundina handan við þjáninguna á persónulegan hátt.
3. Rétt orðræða, að tala á þann hátt að það særi ekki heldur skapi friðsæld og hamingju.
4. Réttar athafnir,  hegðun sem viðheldur skýrleika í hugsun og hátterni.
5. Réttur lífstíll, að  annast sjálfan sig á ábyrgan, heilbrigðan og heildrænan hátt.
Skref þrjú, fjögur og fimm beina athygli okkar að siðgæðinu og hvernig við getum hagað lífi okkar þannig að við stjórnumst ekki af græðgi, hatri og fávísi heldur ræktum með okkur örlæti, góvild, kærleika og heiðarleika.
6. Rétt áreynsla,  að rækta með sér friðsæla áreynslu og vera í jafnvægi.
7. Rétt einbeiting, að rækta með sér stöðugleika og fókus.
8. Rétt meðvitund, að rækta með sér vakandi athygli í jafnvægi.
Síðustu þrjú skrefin snúa að iðkuninni, að efla einbeitingu, meðvitund og átakalausa áreynslu í iðkun okkar.
   Með því að iðka hina áttföldu leið getum við losnað undan þjáningu og vaknað til vitundar um okkar sanna eðli.  Í búddísku fræðunum er talað um búddaeðli (buddha nature), í kristnum fræðum er talað um  kristsvitundina og í jógafræðunum er talað um yoga sem þýðir eining. Allt eru þetta orð sem vísa í veruleika sem erfitt er að nefna eða skilgreina en ef við notum orð yfir hann væru þau t.d. skilyrðislaus kærleikur, óendanleg viska, góðvild, hamingja. Frelsi handan við hugmyndir okkar um sjálf okkur og aðra, handan við hugmyndir okkar um rétt og rangt, gott og vont, tvíhyggju hugans.

Fræ uppljómunar eru í blekkingunni

Búdda var uppi fyrir 2500 árum. Búdda þýðir hinn vakandi eða sá sem þekkir  það sem er eins og það er.  Þekkir bæði sjálfan sig, hið sanna sjálf handan við allar skilyrðingar og þekkir skilyrðingarnar, hlutverkin sem við tökum að okkur, hugmyndirnar, aðstæðurnar, hina skilyrtu tilveru. Allt líf er skilyrt. Við vökvum fræið, ensím sem halda því í dvala skolast burt, það byrjar að spíra, spírur vaxa, rætur vaxa, stöngull vex, lífsorkan tekur á sig form sem er háð skilyrðingum, t.d. upplýsingum í DNA, umhverfi og aðstæðum. Grasið vex svo kemur kanski kind einn daginn og borðar grasið. Stormur sem rífur upp tréð. Þetta er skilyrt tilvera. Manneskjan er líka skilyrt við fæðumst inní ákveðnar aðstæður sem eru mismunandi, líkaminn, fjöslkyldan, umhverfið, aðstæðurnar. Við tökum að okkur mismunandi hlutverk í lífinu og tökum þátt í að skapa  aðstæður og umhverfi. Allt sem við gerum eða gerum ekki hefur áhrif. Lífið er ein samofin heild og manneskjan er hluti af þessari heild. En það sem gerir líf manneskjunnar svo undravert er meðvitundin. Við erum meðvituð um sköpunarkraftinn, um skilyrðingarnar og jafnvel ef vel gengur um vakandi vitund handan við allar skilyrðingar.
   Jack Kornfíeld sagði okkur eitt kvöldið sögu af búddalíkneski í Asíu, gríðarlega stóru líkneski úr leir. Vegna þess hve loftslag var þurt þornaði leirinn og brotnaði oft í þurkum. Munkar sáu um að lagfæra sprungur og var reglulega bætt í þær og hugað vel að búddastyttunni. Eitt sinn er munkur kom að líkneskinu sá hann glitta í eitthvað í einni sprungunni. Hann rannsakaði þetta nánar og sá glitta í eitthvað sem líktist gulli undir leirnum. Þegar betur var að gáð kom í ljós skínandi gullbúdda undir leirnum! Í öll þessi ár höfðu munkarnir alúðlega hugsað um leirstyttuna án þess að vita af gullbúddanum undir leirlaginu. Þannig er hin skilyrta tilvera eins og leirlagið á gullbúddanum. Aldagömul mynstur viðbragða, sem eiga rætur sínar að rekja í ótta og óöryggi, hylja okkar sanna sjálf eða búddaeðlið.
Frá óttanum spretta hindranirnr fimm sem við mætum á andlegri leið okkar. Þær eru löngun, mótþrói, þreyta, dagdraumar og efi. Hindranirnar fimm geta leitt okkur í mikla þjáningu en þær eru líka dulbúið tækifæri til að vakna til vitundar um hið sanna sjálf. Þegar hindranirnar leiða okkur inná veg þjáningarinnar þá trúum við því að þær geti gert okkur hamingjusöm. Við trúum því að það sem okkur langar í geti gert okkur hamingjusöm. Hver kannast ekki við löngun í súkkulaði eða sætabrauð og afleiðingarnar af því að borða of mikið af súkkulaði og sætabrauði. Ef að græðgin tekur völdin þá fáum við illt í magann og hin skammvinna gleði yfir vellíðun af góðu bragði snýst í andhverfu sína vanlíðan. Löngunin þróast í græðgi og græðgin grípur stöðugt í eitthvað utan við okkur sjálf, eitthvað sem á að gera okkur hamingjusöm, eitthvað sem við getum haldið í og gert að okkar. Og græðgin vill alltaf meira það er aldrei nóg. Bara ef ég get fengið mér  annan bita af kökunni, stærri bíl,  flottara hús. Við viljum halda í það sem okkur þykir gott og fá meira af því. Mótþróinn er hið gangstæða eitthvað sem okkur finnst vont og við viljum ekki. Við trúum því að ef við getum forðast þjáninguna þá verðum við hamingjusöm. Flestir finna einhverntíma fyrir líkamlegum verkjum í hugleiðslu. Það getur verið t.d. verkur í mjöðm eða verkur í hné. Við forðumst verkinn, eigum erfitt með að sætta okkur við hann og gerum verkinn að rót ýmisskonar sársauka í tilfinningum eða huga. Lífið væri gott ef að þessi verkur væri ekki. Mótþrói þróast oft yfir í hatur. Til að forðast þjáninguna, flýjum við það sem er óþægilegt, sárt, sorglegt og við  skiptum heiminum í gott og vont, vini og óvini og réttlætum þannig óvild og hatur, förum í stríð.
   Þjáningin er í viðbrögðum okkar og í raun má segja að við bregðumst við skynjun okkar á þrjá vegu: já, nei eða hlutlaust. Já , við viljum meira af þessu.  löngunin verður að  græðgi, við höldum í, viljum meira og það veldur þjáningu. Nei, við viljum ekki þetta, við finnum mótþróa sem þróast í hatur og flótta sem veldur þjáningu. Það sem við skynjum hvorki sem gott né vont fer oft algerlega framhjá okkur. Ef að við finnum hlutleysi þá sækja oft að hindranirnar þreyta og svefn eða dagdraumar um fortíð eða framtíð, sem sagt eitthvað annað en það sem er hér og nú. En um leið og við erum meðvituð um það hvernig við bregðumst við skynjun okkar þá losnum við undan samsömun með því sem er að gerast og við höfum val. Já mig langar í aðra súkkulaðiköku en ég vel að fá mér ekki aðra sneið af því að ég veit að þá fæ ég í magann og að þetta er bara smá kikk ekki ævarandi hamingja. Eða ég veit að þessi verkur í hnénu er ekki það sem ég vil en ég veit að ég losna ekki við hnéð svo ég snerti og sé dýpra, mæti verknum eins og hann er. Verkurinn er skynjun sem kemur og fer, púls, hiti, þrýstingur, alls kyns skynjun sem ég nefni verkur og ýti frá mér og aftengi þar með við augnablikið hér og nú sem veldur enn meiri þjáningu. Við viljum öll vera hamingjusöm og losna við alla þjáningu. Hindranirnar eru blekking sem við tökum sem veruleikann sjálfan og trúum því að geti fært okkur hamingju. Allt á þetta sér stað í huganum og eru viðbrögð við skynjun okkar bæði persónuleg og samfélagsleg. Í djúpri kyrrð hið innra sjáum við í gegnum þessi mynstur og verðum meðvituð um blekkinguna.
   Í búddísku fræðunum er blekkingin nefnd Mara. Þegar Búdda settist undir Bodhi tréð og hét því að standa ekki upp fyrr en hann hefði hugljómast birtist honum Mara í öllu sínu veldi. Fyrst tók Mara á sig ógnvekjandi form og oddhvöss brennandi spjót komu úr öllum áttum að bodisattvanum sem sat undir trénu, en Búdda vissi að þetta var ekki veruleikinn sjálfur og sagði “ ég sé þig Mara” og spjótin breyttust í ilmandi himnesk blóm sem rigndu af himnum ofan. Við það hvarf Mara en birtist á ný í formi undurfagurra kvenna sem nálguðust Búdda tælandi og lofuðu alsælu og gleði og ævarandi hamingju. Við getum ímyndað okkur riddarann á hvíta hestinum eða draumakonuna sú eða sá sem við höfum leitað að alla ævi. En Búdda sá að þetta var Mara og sagði “ ég sé þig Mara”. Hann sá og vissi að ekkert utan hans sjálfs gæti fært honum ævarandi hamingju, hann sá í gegnum blekkinguna. Síðasta hindrunin sem Búdda mætti var efinn. Mara birtist og sagði hver ert þú til að uppjómast, það er bara fyrir fáa útvalda, hver heldur þú eiginlega að þú sért. Þá snerti Búdda jörðina og kallaði jörðina til vitnis um rétt sinn til að vera það sem hann er og sagði “ég sé þig Mara”. Og hann vaknaði til vitundar um sitt sanna sjálf.
    Í þessari sögu af hinum leitandi Búdda þegar hann sat undir Bodhi trénu eru nokkur atriði sem eru mjög mikilvæg leiðarljós á andlegri leið. Mig langar að nefna fyrst ætlun hans. Ætlun hans að sitja þar til hann uppljómast, þar til hann þekkti sannleikann, þar til hann þekkti það sem er eins og það er. Hann valdi það frekar heldur en að viðhalda blekkingunni með því að hlaupa á eftir löngunum og stundargamni og flýja hið óþægilega. Annað sem er afar mikilvægt er innsæi hans á því augnabliki er hugformin urðu sem veruleikinn sjálfur. Hann sá  blekkingar hugans, hvernig hugurinn mætir til leiks og býr til sögur sem við tökum sem veruleikann sjálfan. Ef ég bara fæ mér bita af þessari köku þá verð ég hamingjusöm. Og í þriðja lagi þá er lærdómur þessarar sögu sá að fræ hugljómunar eru í blekkingunni. Fræ hins óskilyrta í skilyrðingunni. Við getum því þakkað fyrir sérhverja skynjun sem tækifæri til að uppgötva frelsi og kærleika óháð aðstæðum eða skilyrtri tilveru okkar. Þegar við hægjum á, tökum okkur tíma til að vaka yfir kyrrðinni og meðvitað að vera með því sem er eins og það er, þá er eins og það rofi til og við sjáum skýrar og skynjum dýpra eðli skynjunarinnar og viðbragða okkar við henni. Við  sjáum í gegnum blekkinguna,  sjáum gullbúddan í leirstyttunni, sjáum og snertum okkar sanna eðli.

Eining alls sem er

Stundum er talað um andlega leið sem leiðina úr líkama óttans í líkama kærleikans, þar sem óttinn er ekki til, þar sem er eining handan við tvíhyggju hugans. Óttinn á rætur sínar að rekja í huganum, hinum smáa huga, í hughjartanu er enginn ótti. En hugurinn mætir til leiks í óteljandi myndum. Þannig fór með konunan sem málaði tígrisdýr á vegg. Hún gerði það svo listavel að myndin var mjög raunveruleg. Þegar konan hafði lokið við verkið og virti það fyrir sér greip hana gríðarleg skelfing. Hún horfði á lifandi tígrisdýr og hljóp út í örvæntingu hrópandi tígrisdýr, tígrisdýr! Hún lagði á flótta skelfingu lostinn yfir þeirri hættu sem steðjaði að, en  hafði gleymt að hún málaði sjálf tígrisdýrið á vegginn. Öll eigum við okkar tígrisdýr sem við höfum málað á vegg og tekið sem veruleikann sjálfan. Þannig getum við orðið fangar eigin hugmynda.
   Adyashanti er Zen kennari sem fékk bréf frá fanga sem heitir Fred. Hann segir í dharmahugleiðslu sem gefin var út á disk. “ Fred er vakandi vitund. Á yfirborðinu er Fred  fangi.  Hann er búinn að vera í fangelsi í Flórída í mörg ár. Hann las bók og uppljómaðist, vaknaði til vitundar um hver hann raunverulega er. Hann skrifaði mér bréf þar sem stóð: “lengi var erfitt að vera í fangelsi þar til ég sleppti takinu á hugmyndinni að ég væri í fangelsi. Þetta er bara umhverfi sem ég lifi í en um leið og ég nefni það fangelsi vil ég losna út”. Við myndum öll bregðast þannig við, við viljum losna út úr fangelsinu. Fangelsi er staður þar sem við erum ekki frjáls. En í raun eru þarna 4 veggir eins og hér. Við getum jú gengið út, við getum gengið út í lífið, út í  alheiminn en ekki út úr lífinu. 99% af samfélaginu eru fangar eigin hugmynda, fangar þráhyggjunnar, græðgi, haturs og blekkinga. Fred skrifar og lýsir því hvað fangelsið er undursamlegt klaustur”.
   Við fæðumst inn í þennan heim með  óendanlega löngun til að ná sambandi, ná tengslum við hvort annað. Vakandi vitund fæðist í þennan heim og lærir leikreglurnar í heimi fullorðna fólksins. Börnin spyrja, hvað er þetta? Barnshugurinn er opinn og leitandi og fullorðna fólkið er með svör á hverju strái.  Hugmyndaheimurinn verður til  og svo tökum við hann svo alvarlega að við höldum að hann sé raunveruleikinn sjálfur, en hugmynd mín um mig er ekki ég, hugmynd mín um þig ert ekki þú. Oft höldum við í hugmyndir um sjálf okkur og aðra sem valda mikilli þjáningu. Þetta getur verið eins og að klæða sig í stakk sem er allt of þröngur og við höfum ekki andrými, við skiljum ekki af hverju við vöknum ekki hamingjusöm á morgnana, af hverju við erum ófullnægð í lífinu, af hverju við elskum ekki náungann meira en við gerum. En við mætum í raun ekki hvort öðru heldur hugmyndum okkar um hvort annað. Það er mjög sárt. Það er sárt að vera hugmynd. Tökum sem dæmi hvernig við umgöngumst barn. Barnið er óendanleg viska sem fæðist inn í þennan heim, óendanlegur kærleikur. Mætum við þessari visku og kærleik eða mætum við hugmyndum okkar um barn. Gömul manneskja er farin að gleyma, mætum við veruleikanum manneskja handan við hugmyndir um hvað það er að gleyma eða mætum við hugmyndinni gömul manneskja alveg út út heiminum? Vitum við hvað er að gerast? Hverjum við mætum? Sannleikurinn í brosinu er oft meiri en í því hvort við munum hvað einhver heitir eða hvaða dagur er í dag. Við þráum að tengjast og tengingin sem við þráum er hið innra. Þetta var svo ljóst fyrir mér eftir mánuðinn í þögn og hugleiðslu. Innra með okkur er gríðarleg löngun til að tengjast, ná sambandi og lifa innihaldsríku lífi. Við náum sambandi og tengjumst hvort öðru þegar við tengjum við dýpri vitund hið innra. Og eina tækifærið til að gera það er í núinu, í augnablikinu hér og nú. Dýpsti sársauki okkar og sorg er aftengingin. Dýpsta gleði okkar er þegar við sameinumst okkar sanna eðli, kærleikanum hér og nú.
   Búdda lýsti uppjómun (nirvana) á einfaldan hátt með því að lýsa því hvað við losnum við þegar við hugljómumst. Við erum laus undan því að halda í (non attachment), laus undan sjálfinu (non self) og laus undan dauðanum (deathless). Sjáfmiðunin sem er orsök mikillar þjáningar hverfur. Égummigfrámértilmín-hringiðan er í huganum og við losnum undan áhrifamætti þessarar hringiðu. Dagsdaglega erum við upptekin af því að vera eitthvað ákveðið og við trúum sögunni um okkur sjálf. Við trúum því að við séum  aðskilin hvort frá öðru. Við trúm því að líf OKKAR sé mikilvægara en líf ANNARA. Sjálfmiðunin er rótgróið hugform sem byrjar að leysast upp þegar við vöknum til vitundar um okkar sanna sjálf og frelsið til að vera það sem við erum handan við allar skilgreiningar. Spurningar vakna og geta leitt okkur dýpra. Hver er það sem hugleiðir? Hver er það sem les? Hver er það sem hlustar? Hver eða hvað er þetta sem við köllum ég?
   Jack Kornfíeld sagði eftirfarandi sögu í einni dharmahugleiðingunni í eyðimörinni. Sagan fjallar um vitundarvakningu vinar hans frá Palestínu. Þeir þekkjast vel og hafa verið að kenna saman. Vinur hans vinnur við ýmis umönnunarstörf og störf í þágu friðar milli Ísraels og Palestínu. Hann var aktivisti og blaðamaður á árunum 1960 – 70 og heimsótti af því tilefni Jerúsalem reglulega og sat í kjölfarið í 6 ár í fangelsi í Ísrael. Og dag einn í fangelsinu dó hann. Hann lýsti reynslu sinni þennan dag, “ ég var pyntaður, það var sparkað í mig, blóð lak úr munni og það var skráð að ég hefði dáið, en ég dó ekki. Meðvitundin eða vitundin fór út úr líkamanum, margir þekkja þessa reynslu úr hugleiðslu eða skyndilegu slysi. Það var fullkominn friður,  vitundin var í öllu rýminu, ég sá sjálfan mig á gólfinu, í hnipri, í sársauka, ég sá fangaverðina sparka í líkamann á gólfinu. Eg var ekki líkaminn og ekki vitnið. Ég var sá sem var pyntaður og sá sem pyntaði, ég var stígvélið á fangaverðinum, ljósgeislinn á veggnum, geitin sem heyrðist í fyrir utan, ég var allt. Það var  alsæla og ég vissi að ekkert sem ég gerði gæti aðskilið mig frá því sem ég er. Og það var þess virði. Þremur dögum síðar vaknaði ég í fangaklefa í þessum limlesta líkama og ég var svo hamingjusamur. Ég var rekinn frá Íslrael og má ekki koma til baka.  Ég giftist ísraelskri konu áður en ég var rekinn og við eigum börn saman og það er mitt svar við stríðinu. Nú sit ég með fólki sem er að deyja. Þau eru hrædd og ég held í hendina á þeim og ég get sagt þeim að það er allt í lagi, það er ekkert að óttast. Ég get sagt þeim frá sannleikanum”. Þessi reynslusaga vekur okkur upp. Hvað þýðir að uppgötva þetta frelsi?
 Uppljómun er þegar við losnum undan græðgi, hatri og blekkingu. Þegar við stjórnumst af græðgi, hatri og blekkingu þá eyðileggjum við hvort annað. Þegar við sleppum takinu þá er hugljómun. Ram Dass orðaði þetta svona, “ég virði stað ljóss, kærleika, sannleika og friðar innra 
með þér. 
Ég virði þann stað innra 
með þér þar sem ef þú 
ert á þeim stað innra með 
þér og ég er á þeim stað innra með mér þá erum við eitt”.
Annar kennari sagði, “kærleikurinn segir mér að ég sé allt. Viskan segir mér að ég sé ekkert. Milli þessara tveggja heima flæðir líf mitt. Ég hvíli handan við alla hluti. Það er víðáttumikið myrkur og það er aðeins ein hreyfing í þessu myrkri. Hreyfing kærleikans”. Jack Kornfield lýsti þessum kennara svona, “ ég hef aldrei fundið eins mikinn kærleik vegna þess að hann krafðist einskins”. Engin krafa um að eitthvað sé öðruvísi en það er. Djúp vissa um einingu alls sem er. Jesú orðaði þetta svona, “ ég og faðirinn erum eitt”.
   Þegar athafnir okkar og ákvarðanir, spretta frá þessum stað verður líf okkar blessun. Hið sanna frelsi hjartans er raunveruleiki og við getum lifað þennan veruleika hvert augnablik. Við getum meðvitað sleppt takinu og gefið eftir inn í nirvana. Við sjáum hvort annað og elskum hvort annað og ef það er hatur eða græðgi þá þekkjum við blekkinguna. Við samsömum okkur ekki með blekkingunni og segjum ég er græðgin, ég er hatrið, hann er græðgin, hún er hatrið. Við þekkjum blekkinguna og sjáum vakandi vitund í hverri sál. Eins og gullbúddann undir leirnum.

Ásta Arnardóttir


www.spiritrock.org
www. dharma.org
www.gaiahouse.co.uk